Félög í eigu Finns Ingólfssonar, Helga S. Guðmundssonar og Hrólfs Ölvissonar eru á meðal þeirra sem finnast í Panamaskjölunum sem lekið hafa frá Mossack Fonseca, lögfræðistofu í Panama. Félag Finns og Helga, sem skráð var í Panama, keypti meðal annars hlut í Landsbankanum á árinu 2007 með láni frá bankanum sjálfum. Mennirnir þrír hafa allir verið áhrifamenn innan Framsóknarflokksins á undanförnum áratugum og Hrólfur er í dag framkvæmdastjóri flokksins. Þetta er meðal þess sem fram kom í Kastljósi kvöldsins þar sem fjallað var um aflandsfélög mannanna þriggja.
Umfjöllun Kastljóss er unnin í samstarfi við Reykjavík Media uppúr gögnum frá Mossack Fonseca sem þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst yfir og deildi með alþjóðlegum samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, Reykjavík Media og 109 öðrum fjölmiðlum víðsvegar um heim.
Keypti í BM Vallá
Hrólfur Ölvisson hefur árum saman gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn og verið framkvæmdastjóri flokksins frá árinu 2010. Hann sat meðal annars í bankaráði Búnaðarbankans skömmu áður en að sá banki var einkavæddur og í stjórnum ýmissa opinberra fyrirtækja eða stofnana fyrir hönd Framsóknarflokksins í áraraðir. Hrólfur var til að mynda stjórnarformaður Vinnumálastofnunar frá árinu 1998 til 2008. Samhliða öllum þessum trúnaðarstörfum var Hrólfur mjög virkur í viðskiptum, og er enn.
Í umfjöllun Kastljóss í kvöld kom fram að Hrólfur hefði árið 2003 stofnað félagið Chamile Marketing á Tortóla í Bresku Jómfrúareyjunum. Um uppsetningu og umsjón félagsins sá panamíska lögfræðistofan Mossack Fonseca. Hrólfur var með prókúru í félaginu og var ásamt viðskiptafélögum sínum eigandi þess.
Á þessum tíma var Hrólfur einn þriggja eigenda félagsins Eldberg ehf. í gegnum annað félag, Jarðefnaiðnað ehf. Rekstur fyrirtækjanna snérist um að safna og flytja út vikurefni. Í Kastljósi kom fram að Tortólafélagið hafi verið notað til að fela fjárfestingu íslensku félaganna tveggja í danska félaginu Scancore ApS. Það var gert með því að Eldberg lánaði félaginu 12 milljónir króna vaxtalaust til að kaupa hlut í Scancore. Í lánasamningi milli Eldbergs og Chamile Marketing vegna fjárfestingarinnar, sem birtur var í Kastljósi í kvöld, sagði að tilgangur lánsins væri „að tryggja að nafn Eldbergs eða móðurfélags þess verði ekki skráð í tengslum við fjárfestingar Chamile Marketing.” Í íslenskum skattalögum eru ákvæði sem takmarka lán sem þessi.
Kastljós greindi einnig frá því að á síðustu árum, eftir að Hrólfur tók við sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, hafi hann tekið þátt í kaupum þriggja stórra fyrirtækja. Árið 2012 keypti hann í félagi við aðra fjárfesta hlut Arion banka í BM Vallá sem síðan var sameinað Björgun og Sementsverksmiðjunni. Víglundur Þorsteinsson, fyrrum eigandi BM Vallár, hefur ítrekað ásakað þáverandi stjórnvöld um margháttuð lögbrot sem leitt hafi til þess að hann hafi misst fyrirtækið sitt og undir þann málflutning hafa sumir þingmenn Framsóknarflokksins tekið. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði ásakanir Viglundar sláandi og að það þyrfti að rannsaka þær. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hefur einnig gagnrýnt „Víglundarmálið“ mjög.
Í samtali við Kastljós sagði Hrólfur að hann hefði ekki séð ástæðu til að kynna þingmönnum Framsóknarflokksins um þessi tengsl sín, en hann situr í stjórn BM Vallár. Hann hafi hins vegar gert Sigmundi Davíð, formanni Framsóknarflokksins, grein fyrir tengslunum.
Panamafélagið keypti í Landsbankanum með láni frá Landsbankanum
Í Kastljósi var einnig greint frá því að Hrólfur hefði stofnað aflandsfélagið Selco Finance í Panama árið 2003. Skömmu eftir stofnun þess gerði Selco samning við bandarískt tryggingafélag sem sérhæfði sig í heilbrigðistryggingum um að fá umboð fyrir tryggingunum á Íslandi. Tæpu ári síðar kynnti Finnur Ingólfsson, þá forstjórí Vátryggingafélags Íslands (VÍS), um að félagið hefði gert samskonar samning við bandaríska tryggingafélagið. Í þeirri yfirlýsingu var ekkert minnst á panamíska félagið sem Hrólfur hafði stofnað. VÍS keypti Selco af Hrólfi á þessum tíma og sagði í Kastljósi að kaupverðið hefði verið um 20 milljónir króna. Hrólfur sagðist þó ekki hafa fengið neitt í sinn hlut vegna þessa. Selco var slitið árið 2010.
Finnur Ingólfsson, sem var varaformaður Framsóknarflokksins, þingmaður viðskiptaráðherra og síðar Seðlabankastjóri, átti einnig ýmis konar persónuleg viðskipti í gegnum aflandsfélög. Þau átti hann ásamt félaga sínum, Helga S. Guðmundssyni, sem Finnur skipaði meðal annars formann bankaráðs Landsbanka Íslands á meðan að hann var ráðherra bankamála. Síðar, árið 2003, var Helgi skipaður í bankaráð Seðlabanka Íslands, þar sem hann sat til ársins 2008. Helgi, sem nú er látinn, var meðal annars formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands frá árinu 2006 og fram á árið 2007. Hann var auk þess áhrifamaður í S-hópnum svokallaða, sem keypti hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum í bankaeinkavæðingunni árið 2002. VÍS, sem Finnur stýrði á þeim tíma, var einnig hluti af S-hópnum.
Í gögnum Mossack Fonseca kemur meðal annars fram að Finnur og Helgi hafi eignast félag í Panama í byrjun febrúar 2007, á meðan að Helgi var enn formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. Félagið hét Adair SA. Í Kastljósi kom fram að tilgangur félagsins væri að kaupa og eiga hlutabréf í Landsbankanum, sem Landsbankinn hafði lánað fyrir. Finnur sagði í skriflegu svari til Kastljóss að tilgangur félagsins hefði verið fjárfestingar. Það hefði tapað miklu og því hefðu aldrei orðið til tekjur í félaginu. Ef þær hefðu orðið þá hefði félagið greitt skatt í Panama en eigendur þess fjármagnstekjuskatt á Íslandi ef þeir hefðu fengið eitthvað út úr því.
Kastljós greindi einnig frá tilurð félagsins Lozanne Inc. í Panama, sem skráð var í eigu Finns. Engar frekari upplýsingar fundust um félagið og Finnur kannaðist ekki við það þegar leitað var upplýsinga hjá honum um það.