Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, var búin að ákveða að bjóða sig fram til forseta Íslands, en framboð sitjandi forseta breytti afstöðu hennar. Hún hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort hún ætli fram.
„Ég var búin að taka ákvörðun um að bjóða mig fram, en eftir að Ólafur Ragnar ákvað að gefa kost á sér til endurkjörs hefur staðan breyst,” segir Guðrún í samtali við Kjarnann. „Ég ætla að leyfa dögunum aðeins að líða áður en ég tek endanlega ákvörðun.”
Reynslumikill sendiherra íhugar framboð
Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Frakklandi, íhugar alvarlega að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Hún staðfestir þetta í samtali við fréttastofu RÚV:
„Ég hef fengið margar áskoranir undanfarna daga, sérstaklega frá konum á ólíkum aldri, og tek þessum áskorunum þannig að ég ætla að íhuga þetta mjög vandlega,“ segir Berglind í samtali við RÚV.
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur hefur enn ekki tekið ákvörðun um framboð.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, ákvað í morgun að bjóða sig ekki fram.
Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, er enn að hugsa sig um. Ekki hefur náðst í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Samtökum iðnaðarins, en hún hefur íhugað framboð.
Fjórir frambjóðendur hafa dregið framboð sitt til baka eftir að Ólafur Ragnar tilkynnti um framboð sitt fyrir viku síðan: Vigfús Bjarni Albertsson, Bæring Ólafsson, Heimir Örn Hólmarsson og Guðmundur Franklín Jónsson.
Fréttin var uppfærð klukkan 15:00.