Kristján Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðssins, hefur látið af störfum að eigin ósk í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um tengsl hans við tvö aflandsfélög. Í yfirlýsingu frá Kristjáni vegna þessa segir:
„Í ljósi umræðu um mig og þeirrar staðreyndar að nafn mitt er að finna í Panamaskjölunum vil ég koma eftirfarandi á framfæri:
Ég hef ávallt gætt þess í mínum störfum að starfa af heilindum og fara að lögum og reglum. Ég tel mikilvægt vegna þessarar umræðu um mig að Sameinaða lífeyrissjóðurinn verði ekki fyrir skaða. Ég hef því tilkynnt stjórn sjóðsins að ég óski lausnar frá störfum í þeirri von að sátt megi skapast um sjóðinn og starfsemi hans.
Ég hef starfað í 19 ár hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum þar sem ég hef eignast marga góða vini og ég vil þakka öllu þessu góða fólki fyrir gott samstarf í gegnum öll þessi ár."
Félög í eigu tveggja framkvæmdastjóra íslenskra lífeyrissjóða er að finna í skjölum panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca. Kastljós fjallaði um Panamaskjölin á mánudagskvöld í samstarfi við Reykjavik Media.
Um er að ræða Kára Arnór Kárason, nú fyrrverandi framkvæmdastjóri Stapa - lífeyrissjóðs, og framkvæmdastjóra Sameinaða lífeyrissjóðsins, Kristján Örn Sigurðsson. Kári Arnór sagði starfi sínu lausu eftir að Kastljós spurði hann spurninga vegna Panamaskjalanna og nú hefur Kristján Örn gert slíkt hið sama.
Hvorki Kári Arnór né Kristján Örn tilkynntu stjórnum sjóðanna sem þeir stýrðu um viðskipti sín.
Kristján Örn er tengdur tveimur félögum sem er að finna í Panamaskjölunum; Mika Assett og Fulcas Inc. Mika var stofnað af Landsbankanum í Lúxemburg árið 2007. Kristján Örn var með umboð og prókúru í félaginu, sem er skráð á Panama. Fram kom í Kastljósi að svo virðist sem það hafi verið flutt frá Landsbankanum yfir til Nordea-bankans við hrun Landsbankans og svo verið lagt niður að beiðni Nordea árið 2014. Prókúra og stjórn Kristjáns Arnar á félaginu var þá gild til ársloka 2010.
Kristján Örn sagði við Kastljós að Mika hafi verið stofnað árið 2008 til að ávaxta fjármuni en ekki til að borga lægri skatta. Hann hafi þó ákveðið að hætta við að nota það. Hann sagðist ekki muna hversu mikið hann borgaði fyrir uppsetninguna á Mika. Hann viðurkenndi að hann hafi ekki látið stjórn lífeyrissjóðsins vita.
Fulcas Inc. var stofnað af Nordea árið 2009. Kristján Örn var líka skráður prókúruhafi þess og þar með raunverulegur eigandi í janúar 2009. Fulcas Inc er enn starfandi. Kristján Örn sagðist í svari sínu til Kastljóss að um hafi verið að ræða einstök viðskipti og nauðsynlegt hafi verið að stofna félagið til að geta farið í þau viðskipti. En ekkert varð af þeim viðskiptum.