Hrannar Pétursson er hættur við framboð til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hann á fundi Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík með forsetaframbjóðendum í hádeginu. Hrannar sagði ástæðu þessa þá að Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, hefði ákveðið að bjóða sig fram á ný eftir að hafa tilkynnt um áramót að hann ætlaði að draga sig í hlé.
Óláfur Ragnar, sem verið hefur forseti Íslands í 20 ár, tilkynnti um ákvörðun sína mánudaginn 18. apríl. Síðan þá hafa fjórir forsetaframbjóðendur hætt við framboð. Tveir þeirra drógu framboð sitt til baka samdægurs, þeir Vigfús Bjarni Albertsson og Guðmundur Franklín Jónsson. Heimir Örn Hólmarsson bættist svo við skömmu síðar og um helgina tilkynnti Bæring Ólafsson líka að hann ætlaði ekki lengur fram. Allir báru fyrir sig ákvörðun Ólafs Ragnars.
Enn eru ellefu frambjóðendur enn í slagnum um forsetaembættið.
Hrannar las upp ræðu á fundinum þar sem hann sagði undanfarna mánuði hafa verið bæði annasama og lærdómsríka.
„Sú ákvörðun forseta Íslands að gefa kost á sér til endurkjörs var óvænt. Hún breytir eðli kosninganna og í ljósi aðstæðna hef ég ákveðið að draga framboð mitt til baka,“ sagði Hrannar. „Mín sýn á embættið er óbreytt. Forsetinn á að tala yfir átakalínurnar í samfélaginu og leggja sig fram um að sætta ólík sjónarmið. Hann á að tala fyrir samhjálp og sanngirni. Hann á að sýna kjark og skynsemi í öllum sínum störfum en ekki taka þátt í pólitísku dægurþrasi. Hann á að berjast fyrir því að Ísland verði spennandi framtíðarvalkostur fyrir ungt fólk og uppbyggileg viðhorf verði ríkjandi. Hann á að beita sér fyrir nýsköpun í atvinnulífi, menningu og menntun. Hann á að vera helsti talsmaður kynjajafnréttis í landinu og baráttumaður fyrir bættri lýðheilsu. Hann á að vera talsmaður lands og þjóðar á alþjóðavettvangi, taka þátt í að kynna kosti Íslands og styðja við starfsemi Íslendinga erlendis með hógværð og látleysi."
Fréttin hefur verið uppfærð.