Hrólfur Ölvisson hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, en hann hefur gengt því starfi frá árinu 2010. Hrólfur var til umfjöllunar í Kastljósþætti á mánudag þar sem varpað var ljósi á aflandsfélagaeign hans. Í yfirlýsingu á heimasíðu Framsóknarflokksins segir Hrólfur að hann taki þess ákvörðun í ljósi þess hversu „einsleit og óvægin umræðan er. Þetta er persónuleg ákvörðun mín og á engan hátt viðurkenning á því að ég hafi brotið lög eða starfað með óheiðarlegum hætti."
Hrólfur segir að hann hafi þegar tilkynnt framkvæmdastjórn flokksins um ákvörðun sína og öðrum sem fara með trúnaðarstörf fyrir hann. „Spurningum blaðamanna um mjög tímabundna aðkomu mína að tveimur aflandsfélögum tel ég mig hafa svarað fullnægjandi. Því hefur ranglega verið haldið fram að ég hafi keypt hlutafé í BM Vallá með tortryggilegum hætti. Arion banki bauð BM Vallá til sölu í opnu söluferli sem félag mitt ásamt öðrum fjárfestum tók þátt í. Að bendla þau kaup við aflandsfélög er alfarið rangt. Ég dreg mig í hlé til að koma í veg fyrir að rýrð verði kastað á Framsóknarflokkinn og þau góðu störf sem hann hefur unnið að í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég er ekki kjörinn fulltrúi en tel þetta engu að síður rétta ákvörðun."
Keypti í BM Vallá
Hrólfur Ölvisson hefur árum saman gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn og verið framkvæmdastjóri flokksins frá árinu 2010. Hann sat meðal annars í bankaráði Búnaðarbankans skömmu áður en að sá banki var einkavæddur og í stjórnum ýmissa opinberra fyrirtækja eða stofnana fyrir hönd Framsóknarflokksins í áraraðir. Hrólfur var til að mynda stjórnarformaður Vinnumálastofnunar frá árinu 1998 til 2008. Samhliða öllum þessum trúnaðarstörfum var Hrólfur mjög virkur í viðskiptum, og er enn.
Í umfjöllun Kastljóss á mánudag kom fram að Hrólfur hefði árið 2003 stofnað félagið Chamile Marketing á Tortóla í Bresku Jómfrúareyjunum. Um uppsetningu og umsjón félagsins sá panamíska lögfræðistofan Mossack Fonseca. Hrólfur var með prókúru í félaginu og var ásamt viðskiptafélögum sínum eigandi þess.
Á þessum tíma var Hrólfur einn þriggja eigenda félagsins Eldberg ehf. í gegnum annað félag, Jarðefnaiðnað ehf. Rekstur fyrirtækjanna snérist um að safna og flytja út vikurefni. Í Kastljósi kom fram að Tortólafélagið hafi verið notað til að fela fjárfestingu íslensku félaganna tveggja í danska félaginu Scancore ApS. Það var gert með því að Eldberg lánaði félaginu 12 milljónir króna vaxtalaust til að kaupa hlut í Scancore. Í lánasamningi milli Eldbergs og Chamile Marketing vegna fjárfestingarinnar, sem birtur var í Kastljósi á mánudag, sagði að tilgangur lánsins væri „að tryggja að nafn Eldbergs eða móðurfélags þess verði ekki skráð í tengslum við fjárfestingar Chamile Marketing.” Í íslenskum skattalögum eru ákvæði sem takmarka lán sem þessi.
Kastljós greindi einnig frá því að á síðustu árum, eftir að Hrólfur tók við sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, hafi hann tekið þátt í kaupum þriggja stórra fyrirtækja. Árið 2012 keypti hann í félagi við aðra fjárfesta hlut Arion banka í BM Vallá sem síðan var sameinað Björgun og Sementsverksmiðjunni. Víglundur Þorsteinsson, fyrrum eigandi BM Vallár, hefur ítrekað ásakað þáverandi stjórnvöld um margháttuð lögbrot sem leitt hafi til þess að hann hafi misst fyrirtækið sitt og undir þann málflutning hafa sumir þingmenn Framsóknarflokksins tekið. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði ásakanir Viglundar sláandi og að það þyrfti að rannsaka þær. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hefur einnig gagnrýnt „Víglundarmálið“ mjög.
Í samtali við Kastljós sagði Hrólfur að hann hefði ekki séð ástæðu til að kynna þingmönnum Framsóknarflokksins um þessi tengsl sín, en hann situr í stjórn BM Vallár. Hann hafi hins vegar gert Sigmundi Davíð, formanni Framsóknarflokksins, grein fyrir tengslunum.