Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mælist með 52,6 prósenta fylgi í nýrri skoðanakönnun MMR. Andri Snær Magnason mælist með 29,4 prósent og Halla Tómasdóttir með 8,8 prósent. Aðrir frambjóðendur mælast með undir tveggja prósenta fylgi.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá MMR að þegar fylgi þriggja efstu frambjóðendanna er skoðað eftir samfélagshópum kemur í ljós að Ólafur Ragnar Grímsson hefur hlutfallslega meira fylgi á landsbyggðinni, á meðan Andri Snær Magnason hefur hlutfallslega meira fylgi á höfuðborgarsvæðinu. Fylgi Höllu Tómasdóttur mældist einnig meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.
Ólafur Ragnar hefur hlutfallslega meira fylgi meðal þeirra sem hafa minni menntun og lægri tekjur. „En Andri Snær Magnason hefur hlutfallslega meira fylgi meðal þeirra sem eru tekjuhærri og með aukna menntun, en fólk í sérfræðistörfum er líklegast til að vera fylgjendur Andra Snæs Magnasonar. Halla Tómasdóttir hefur einnig töluvert meira fylgi meðal kvenna auk þess sem stjórnendur og æðstu embættismenn eru hlutfallslega líklegri til að vera fylgjendur Höllu í samanburði við fólk í annars konar störfum," segir í tilkynningunni.
Spurt var: „Eftirfarandi einstaklingar hafa lýst yfir framboði til embættis forseta Íslands. Hvern þeirra myndir þú kjósa ef kosið yrði til forseta í dag?" Fjöldi svarenda var 953 einstaklingar. Könnunin var gerð 22. til 26. apríl 2016.