Áætlað er að kvennaálma fangelsisins á Hólmsheiði verði tekin í notkun í sumar. Fullur rekstur í fangelsinu hefst í haust. Pláss verður fyrir 56 fanga.
Enn er stefnt að því að halda sig innan upphaflegra fjárheimilda, en áætlaður heildarkostnaður er um 2,7 milljarðar. Framkvæmdakostnaðurinn er áætlaður tæpir tveir milljarðar, eða 1.930 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum frá Halldóru Vífilsdóttur, forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins.
Jarðvinnuframkvæmdir hófust í júní árið 2013 og var lokið þá um haustið. Framkvæmdir vegna húss og lóðar hófust svo í janúar 2014. Halldóra segir framkvæmdinni miða vel og allt hafi gengið vel hingað til.
„Við stefnum enn að því að loka verkefninu með upprunarlegar áætlanir,” segir hún. „Síðan fer lokauppgjör fram í sumar og haust og þá verður endanlegur kostnaður ljós.”
Hegningarhúsið lokar 1. júní
Fangelsið á Hólmsheiði leysir aðrar byggingar af hólmi: Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, sem starfrækt hefur verið í 140 ár, og Kvennafangelsið í Kópavogi, en hvorugt fangelsið uppfyllir nútímakröfur um fangavist. Einnig verður gæsluvarðhaldsdeild í Fangelsinu á Litla-Hrauni lögð niður og aðstaða hennar tekin fyrir afplánun.
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir að ekki sé orðið alveg ljóst hvenær fyrstu fangarnir komi í hús. Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, sem hefur verið í samfelldum rekstri frá 1874, verður lokað 1. júní næstkomandi.
„Starfsfólk þar flyst á þeim tímamótum á Hólmsheiði en fangar í Hegningarhúsinu verða fluttir í önnur fangelsi,” segir Páll við Kjarnann. „Þegar allt hefur verið prófað á Hólmsheiði verða fyrstu fangar teknir til afplánunar þar, fyrst konur og svo koll af kolli.”