Lífeyrissjóðir hafa lánað mun hærri upphæðir til húsnæðiskaupa að undanförnu miðað við síðustu ár. Sjóðirnir lánuðu nær fjórfalt meira til sjóðsfélaga sinna á fyrstu tveimur mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Hagfræðingur segir lífeyrissjóðina nánast einu aðilana hér á landi sem geti lánað fjármagn til langs tíma í einhverjum mæli. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir að sjóðsfélagalán lífeyrissjóðanna námu 12 milljörðum króna frá byrjun desember til loka febrúar, en það er hærri upphæð en lánuð var út allt árið 2014.
Haft er eftir Ásgeiri Jónssyni hagfræðingi að lífeyrissjóðir séu með lengri fjármögnun en bankarnir. Skuldbindingar lífeyrissjóða til sjóðsfélaga séu ekki greiddar út fyrr en sjóðsfélagar fari á eftirlaun, sem sé áratugum eftir að þeir hefji að greiða lífeyri, öfugt við bankana sem séu mest megnis fjármagnaðir með óbundnum innistæðum. Það geri lífeyrissjóðum auðveldara fyrir en bönkunum að lána út til langs tíma.
Af sem áður var
Fram kom í Fréttablaðinu í gær að íbúðum í eigu Íbúðalánasjóðs hafi fækkað um tæp fjörutíu prósent á síðustu tveimur árum. Eignirnar voru tæplega 1.300 í lok mars 2016, samanborið við rúmlega 2.100 í mars árið 2014. Fram kom í blaðinu að stefnt sé að því að þær verði 750 í árslok.
Ásgeir segir að áður hafi lífeyrissjóðir einmitt að mestu leyti lánað félögum í gegn um Íbúðalánasjóð, sem aftur lánaði um 60 prósent allra íbúðalána Íslandi, oftast með skuldabréfum sem lífeyrissjóðir keyptu.