Tæplega 30 prósent kjósenda vill ekki taka afstöðu til þeirra forsetaframbjóðenda sem eru í framboði. Þetta kemur fram í nýrri könnun. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, nýtur langmests stuðnings í könnuninni, en 41 prósent segjast myndu kjósa hann. 18,3 prósent myndu kjósa Andra Snæ Magnason og 6,2 prósent Höllu Tómasdóttur. Niðurstöðurnar voru birtar í fréttum RÚV í gærkvöld.
Þjóðin skiptist í tvennt
Afar skiptar skoðanir eru um þá ákvörðun Ólafs Ragnars um að bjóða sig aftur fram til forseta. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup, sem RÚV greindi frá í gærkvöld, eru 44 prósent ánægð með það og 43 prósent óánægð.
Séu niðurstöðurnar skoðaðar betur þá sögðust 22 prósent alfarið ánægð með ákvörðun Ólafs og 23 prósent alfarið óánægð. Þrettán prósent voru mjög ánægð og níu prósent mjög óánægð. Tíu prósent voru frekar ánægð og ellefu prósent frekar óánægð. Þrettán prósent sögðust hvorki vera ánægð né óánægð.
Eins og í niðurstöðum nýjustu skoðanakönnunar MMR, sem birt var á miðvikudag, kemur skýr munur í ljós í afstöðu til Ólafs Ragnars eftir búsetu og tekjum. Í könnun Gallup kemur fram að fleiri höfuðborgarbúar voru óánægðir með framboðstilkynninguna en ánægðir en þegar litið er til íbúa landsbyggðarinnar er afstaðan öfug. Sé litið til tekna þá eru þeir tekjulægstu flestir ánægðir með ákvörðun Ólafs Ragnars, en eftir því sem tekjur aukast breytist afstaðan. Helmingur þeirra sem hefur milljón til 1.250 þúsund í tekjur á mánuði óánægður með ákvörðunina. En helmingur þeirra sem hafa enn hærri tekjur er ánægður með framboð forsetans.
Þessi könnun Gallup var gerð dagana 20. til 27. apríl, en Ólafur Ragnar tilkynnti ákvörðun sína fyrir 11 dögum síðan, mánudaginn 18. apríl.