Langflestir kjósendur Framsóknarflokksins eru ánægðir með ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að gefa kost á sér til endurkjörs sem forseti Íslands. Fæstir kjósendur Samfylkingar og Pírata eru ánægðir með framboðið. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.
Kjósendur flokksins og forystan fagnar
Ólafur nýtur mests stuðnings meðal kjósenda Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. 83 prósent kjósenda Framsóknarflokks segjast vera ánægðir með framboð Ólafs og 71 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks. 26 prósent kjósenda Vinstri grænna eru ánægðir með framboðið, 23 prósent kjósenda Pírata og 22 prósent Samfylkingarfólks. 30 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa aðra flokka eru ánægðir með ákvörðun Ólafs að bjóða sig fram.
Bæði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og starfandi formaður Framsóknarflokksins, og Ásmundur Einar Daðason þingflokksformaður hafa lýst yfir ánægju sinni með framboð Ólafs Ragnars.
Meirihluti kjósenda annarra flokka óánægðir
71 prósent stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar eru ánægðir með ákvörðunina og 27 prósent þeirra sem styðja hana ekki. Af þeim sem eru óánægðir eru flestir kjósendur Pírata, eða 65 prósent. Svo koma Vinstri græn, með 63 prósent, Samfylking með 61 prósent og aðrir flokkar með 60 prósent. 19 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru óánægðir með ákvörðunina og 10 prósent kjósenda Framsóknarflokks.
Af þeim sem kusu Ólaf í síðustu forsetakosningum eru 75% ánægð með ákvörðun hans um að gefa kost á sér aftur en mun færri meðal þeirra sem kusu aðra frambjóðendur síðast eða kusu ekki. 82 prósent þeirra sem kusu Þóru Arnórsdóttur í síðustu kosningum eru óánægðir með ákvörðunina.
Munur á afstöðu eftir búsetu
Sé heildin skoðuð eru afar skiptar skoðanir um þá ákvörðun Ólafs Ragnars um að bjóða sig aftur fram til forseta. Samkvæmt Þjóðarpúlsinum eru 44 prósent ánægð með það og 43 prósent óánægð.
Séu niðurstöðurnar skoðaðar betur þá sögðust 22 prósent alfarið ánægð með ákvörðun Ólafs og 23 prósent alfarið óánægð. Þrettán prósent voru mjög ánægð og níu prósent mjög óánægð. Tíu prósent voru frekar ánægð og ellefu prósent frekar óánægð. Þrettán prósent sögðust hvorki vera ánægð né óánægð.
Meiri ánægja er með ákvörðun forsetans meðal íbúa landsbyggðar- innar en höfuðborgarsvæðisins en einnig er munur á viðhorfi fólks eftir tekjum og menntun. Fólk er almennt ánægðara með ákvörðun forsetans eftir því sem það hefur lægri fjölskyldutekjur, fyrir utan fólk með allra hæstu tekjurnar sem er aftur álíka ánægt og fólk með lægstu tekjurnar. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi eru óánægðari með ákvörðun forsetans en þeir sem hafa minni menntun að baki.
Yfirburðir í könnunum
Forsetakosningarnar verða haldnar hér þann 25. júní. Eins og staðan er núna eru 11 í framboði, en einungis þrír frambjóðendur hafa mælst með yfir tveggja prósenta fylgi: Ólafur Ragnar Grímsson, Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir. Ólafur er með mikla yfirburði í öllum skoðanakönnunum og hefur mælst með fylgi á bilinu 40 til 52 prósent. Andri Snær hefur mælst með á bilinu 18 til 30 prósent og Halla á bilinu 6,6 til 8,8 prósent.