Baldur Ágústsson, fasteignasali og athafnamaður, ætlar að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Hann tilkynnir þetta á heimasíðunni sinni. Baldur er nú tólfti frambjóðandinn.
Baldur bauð sig fram til forseta á móti Ólafi Ragnari Grímssyni árið 2004 og hlaut þá 12,5 prósenta fylgi með 13.250 atkvæði.
Á heimasíðu sinni segir Baldur að markmið framboðs síns sé meðal annars að endurvekja virðinguna fyrir embætti forseta Íslands, að vekja athygli á skuldasöfnun ungs fólks, beita sér fyrir bættri þjónustu við sjúka, aldraða og öryrkja og styðja við baráttuna gegn fíkniefnum og glæpum.
Guðni og Berglind eiga eftir að tilkynna
Guðni Th. Jóhannesson ætlar að tilkynna ákvörðun sína á fimmtudag, uppstigningardag, og hefur boðað til fundar að því tilefni í Salnum í Kópavogi. Guðni mældist með jafn mikið fylgi og Ólafur Ragnar ef valið stæði á milli þeirra, í nýrri könnun Frjálsrar verslunar. Svarendur könnunarinnar máttu nefna hvern sem er sem þeir vildu sjá í embætti forseta.
Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Frakklandi, kom til landsins fyrir helgi til að ræða bakland sitt fyrir mögulegt framboð. Hún var nefnd á nafn í könnuninni og hlaut tvö prósent atkvæða. Hún á eftir að tilkynna ákvörðun sína.
Guðrún, Ellen og Þorgerður ætla ekki í framboð
Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, tilkynnti um helgina að hún ætlaði ekki að bjóða sig fram. Það sama gerði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og fyrrverandi menntamálaráðherra. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, tilkynnti í dag að hún ætli ekki að gefa kost á sér, en hún hefur legið undir feldi í nokkurn tíma.
Eins og áður segir eru nú tólf manns í framboði til embættis forseta. Þó má gera ráð fyrir að ekki nái allir að safna tilskyldum fjölda undirskrifta, en framboðsfrestur rennur út á miðnætti 20. maí. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst um helgina en almenn kosning verður 25. júní.
Fréttin var uppfærð klukkan 13:00 þegar Ellen Calmon tilkynnti að hún ætli ekki að gefa kost á sér.