Fjölmiðlanefnd hefur óskað eftir upplýsingum um hverjir séu endanlegir eigendur tveggja félaga sem bæst hafa í eigendahóp 365 miðla. Kjarninn greindi frá því á laugardag að félögin, ML 120 ehf. og Grandier S.A., hefðu samþykkt að kaupa nýtt hlutafé í 365 miðlum á gamlársdag í fyrra fyrir samtals 230 milljónir króna. Innkoma félaganna, sem bæði eru með rík tengsl við Lúxemborg, í hluthafahóp 365 miðla var ekki tilkynnt til Fjölmiðlanefndar líkt og lög gera ráð fyrir.
Samkvæmt Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar, bárust hins vegar upplýsingar um eigendabreytingar nefndinni í gær, 1. maí, og var heimasíðu hennar uppfærð í samræmi við þær upplýsingar í morgun. Þar hafi þó vantað upplýsingar um endanlega eigendur ML 120 ehf. og Grandier S.A. og í kjölfarið hafi því verið óskað eftir þeim. Nú síðdegis var heimasíða Fjölmiðlanefndar uppfærð á ný með upplýsingum að Grandier S.A. sé í eigu Sigurðar Bollasonar. Enn vantar þó upplýsingar um endanlegt eignarhald á ML 120 ehf. Einar Þór Sverrisson, stjórnarmaður í 365 miðlum, segir í tölvupósti til Kjarnans að um misritun sé að ræða í þeim gögnum sem send voru fyrirtækjaskrá. ML 120 ehf. sé ekki eigandi í 365 miðlum.
Vildu ekki upplýsa hverjir nýir eigendur eru
Kjarninn greindi frá því á laugardag að í lok síðasta árs, nánar tiltekið á gamlársdag, hafi verið samþykkt hlutafjáraukning í 365 miðlum. Þá skráðu þrír aðilar sig fyrir nýju hlutafé og borguðu samtals 550 milljónir króna fyrir. Allir aðilarnir þrír eru með rík tengsl við Lúxemborg. Og við hjónin Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur og Jón Ásgeir Jóhannesson. Þetta kom fram í skjölum sem send hafa verið til fyrirtækjaskráar. Þegar Kjarninn óskaði eftir upplýsingum hjá Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra 365 miðla, um hverjir hinir nýju eigendur væru fengust ekki svör við því.
Þótt hlutafjáraukningin hafi verið ákveðin á fundi á gamlársdag þá barst fyrirtækjaskrá ekki tilkynning um breytingu á hlutafé 365 miðla fyrr en 26. febrúar 2016. Í þeirri tilkynningu kom fram að hlutaféð hefði verið hækkað um 550 milljónir króna og að þrír aðilar hefðu skuldbundið sig til að greiða þá upphæð fyrir hið nýja hlutafé. Tveir þeirra kaupendanna keyptu á genginu 1,16 krónur á hlut, sem þýðir að þeir tengjast fyrri meirihlutaeigendum. Einn keypti hins vegar á genginu 1,0 krónur á hlut, sem gefur til kynna að þar eigi að vera aðili sem sé óháður þeim meirihlutaeigendum.
Tvö félög í eigu Ingibjargar
Það félag sem keypti mest var Moon Capital S.a.r.l., skráð í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, sem skráði sig fyrir nýju hlutafé upp á 230 milljónir króna. Hinn aðilinn sem greiddi 1,16 krónur á hlut í aukningunni, og borgaði alls 120 milljónir króna í reiðufé inn í fyrirtækið, var sagður vera ML 120 ehf. Félagið er skráð til heimilis á Suðurlandsbraut 4, hjá lögmannstofunni Mörkinni.
Einar Þór Sverrisson, einn eiganda Markarinnar og stjórnarmaður í 365 miðlum, segir að ML 120 ehf. sé ekki í eigendahópi 365 miðla. Um misritun hafi verið að ræða í fundargerð stjórnar 365 miðla sem send var til fyrirtækjaskráar. Sá aðili sem skráði sig fyrir hinu nýja hlutafé er ML 102 ehf., félag sem er skráð í eigu Ingibjargar Pálmadóttur.
Stjórnarmenn með rík tengsl við aðaleigendur 365 miðla
Hinn eigandinn sem bættist við hlutahafahóp 365 miðla, og keypti nýtt hlutafé fyrir 200 milljónir króna, er félagið Grandier S.A. í Lúxemborg. Ekki er hægt að nálgast upplýsingar um hver sé endanlegur eigandi þess félags en samkvæmt tilkynningum sem borist hafa til fyrirtækjaskráarinnar í Lúxemborg voru þrír menn skipaðir í stjórn félagsins í fyrrasumar, nánar tiltekið í júlí 2015. Þeir eru Don McCharthy, stjórnarformaður House of Frasier og náinn viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar til margra ára, Sigurður Bollason, umsvifamikill íslenskur fjárfestir sem hefur einnig unnið mikið og náið með Jóni Ásgeiri í gegnum tíðina, og Þorsteinn Ólafsson, framkvæmdastjóri lúxembúrgíska eignastýringarfyrirtækisins Arena Wealth Management. Lekar frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca, sýna að Þorsteinn er umsjónaraðili félaga í eigu Ingibjargar, og sem lotið hafa stjórn Jóns Ásgeirs, sem eiga skráð heimilisfesti í þekktum skattaskjólum. Á meðal þeirra félaga er áðurnefnt Guru Invest.
Don McCharthy stofnaði fjárfestingafélagið JMS Partners með Jóni Ásgeiri og Gunnari Sigurðssyni, fyrrum forstjóra Baugs, árið 2010. Sigurður Bollason fjárfesti mikið fyrir hrun í verkefnum sem tengdust Baugi. Hann sat meðal annars í stjórn FL Group um tíma og var ífámennum hópi manna sem tók þátt í steggja Jón Ásgeir á ensku sveitasetri árið 2007.
Samkvæmt uppfærðum upplýsingum á heimasíðu Fjölmiðlanefndar í dag er endanlegur eigandi Grandier S.A. Sigurður Bollason.
*Fréttin var uppfærð klukkan 16:55 eftir að tölvupóstur barst frá Einari Þór Sverrissyni um að félagið 120 ehf. væri ekki í eigendahópi 365 miðla. Um misritun hafi verið ræða í skjölum sem send voru inn til fyrirtækjaskráar.