Greg Lippman, sem hagnaðist verulega á því að veðja á hrun fasteignamarkaðarins í Bandaríkjunum árið 2007 og 2008, er kominn í nýja tegund viðskipta. Sértæk brúðkaupslán.
Lippman er ein aðalsöguhetjan í bókinni The Big Short, eftir Michael Lewis, en kvikmynd eftir bókinni kom út í fyrra, og var tilnefnd til Óskarsverðlauna í fjölmörgum flokkum. Ryan Gosling leikur Lippman í myndinni, en hann var áður starfsmaður Deutsche Bank og byggði bankinn upp skortstöðu gegn fasteignamarkaðnum í Bandaríkjunum sem nam fimm milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 650 milljörðum króna. Hann þurfti að berjast fyrir því að ná sínu fram og voru fjölmargir sem efuðust stórkostlega um að hann hefði rétt fyrir sér. Fáir trúðu því að skuldabréfavafningarnar sem veðjað var gegn, væru jafn verðlitlir og þeir reyndust vera.
Veðmálið gekk upp
Að lokum fór svo, hagnaðurinn var gífurlegur af viðskiptunum. Sjálfur fékk hann bónusgreiðslu upp á 47 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 6,1 milljarði króna, þegar búið var að framkvæma síðustu viðskiptin. Gott gengi Lippman leiddi til þess að hann hætti störfum hjá Deutsche Bank og stýrir nú vogunarsjóði, LibreMax Capital LLC.
Sjóðurinn hefur nú samþykkt að fjármagna lán fyrirtækisins Promise Financial, sem veitir lán til brúðkaupshalds í gegnum netið, samkvæmt fréttum Bloomberg. Meðaltalskostnaður við brúðkaup í Bandaríkjunum er áætlaður 30 þúsund Bandaríkjadali, eða um 3,9 milljónir króna. Markaðurinn er stór og stöðugur, þar sem tölur um giftingar liggja fyrir og kortlagning markaðarins út frá því nokkuð fyrirsjáanleg. Stofnendur Promise Financial, hinn 29 ára gamli Josh Jersey og hinn þrítugi Bradley Valderstarren, segja að þessi þjónusta sé ekki síst til þess fallin að koma til móts við aukna eftirspurn eftir lánum sem bera hærri vexti en hefðbundin íbúðalán, enda eru lánin til brúðkaupahalds til skemmri tíma og ekki veitt gegn sérstökum veðum.
Allur pakkinn
Hámarkslán fyrirtækisins eru 10 þúsund Bandaríkjadalir, eða sem nemur 1,3 milljónum króna, og geta vextir á ári verið frá 6,99 prósent upp í allt að 30 prósent. Lánin er síðan sniðin að ákveðinni þjónustu, til dæmis ljósmynda- og veisluþjónustu. Allur pakkinn sem brúðhjónin óska eftir.
Flestir lántakar Promise Financial eru með gott lánshæfi (Credit Score) en hafa ekki safnað fyrir þeirri upphæð sem þarf til að gera stóra daginn í takt við óskir brúðhjóna.
LibreMax Capital horfir til þess, að sértækar lánveitingar, eins og til brúðkaupshalds, muni vaxa nokkuð á næstunni og færast frá bönkum til smærri fyrirtækja, ekki síst sem starfa eingöngu á netinu.