Guðni Th. Jóhannesson fagnar því að Davíð Oddsson hafi ákveðið að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Hann hafi heyrt af framboðinu í gær og því hafi yfirlýsing Davíðs ekki komið sér neitt mjög á óvart. Nú taki hann þátt í að móta söguna, í stað þess að skrifa bara um hana sem sagnfræðingur. Ákvörðun Davíðs hafi engin áhrif á ákvörðun Guðna að bjóða sig fram til forseta, en Guðni tilkynnti um ákvörðun sína síðastliðinn fimmtudag. Þetta kom fram í viðtali við Guðna í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag, sem er í fyrsta sinn í umsjón Páls Magnússonar, fyrrum útvarpsstjóra.
Davíð tilkynnti í sama þætti í morgun að hann ætlaði að bjóða sig fram. Taldi Davíð sér það m.a. til tekna að vera mann sem sundrar ekki fólki, sem sé óhræddur við að taka ákvarðanir, geti brugðist við og láti engan rugla í sér. Þjóðin þekkti hans kosti og galla og því kæmi Davíð henni ekki á óvart. Guðni sagði að sú mynd sem Davíð dró upp af sjálfum sér í viðtalinu væri í samræmi við þá sem sagnfræðingar myndu fallast á. Það sé ekki svartnætti framundan án þess að „vera undir handjaðri Davíðs eða Ólafs Ragnars." Þeirra tími sé að mati Guðna liðinn, en auðvitað sé það fólksins að ákveða það.
Guðni segist ekki sammála þeim röksemdarfærslum sem Davíð færði fyrir framboði sínu. Hún væri samhljóma því sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafi fært fyrir framboði sínu. Þ.e. að þeir verði að standa vaktina því að svo miklir óvissutímar séu nákvæmlega núna.
Svaraði spurningum um afstöðu til Icesave
Í Sprengisandi svaraði Guðni því skýrt hver afstaða hans væri til Icesave-málsins. Guðni benti á að þegar það mál reið yfir hafi hann ekki verið í forsetaframboði, heldur sagnfræðingur úti í bæ. Hann hafi ekki komið á ákvörðunum um málið líkt og sitjandi forseti né hafi hann verið formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands þegar Icesave-samningarnir urðu að veruleika, eins og Davíð var. Því hafi staða hans verið allt önnur en þeirra tveggja.
En Guðni sagði skýrt að varðandi Icesave I, hinn svokallaða Svavarssamning, þá hafi einungis 64 einstaklingar tekið ákvörðun í því máli. Þeir hafi verið þingmenn þjóðarinnar, en Alþingi samþykkti þá og innleiddi í lög, og Ólafur Ragnar Grímsson, sem skrifaði undir lögin. Samningunum hafi hins vegar verið hafnað af Bretum og Hollendingum sem sættu sig ekki við þá að öllu leyti. Í Icesave II hafi hann kosið á móti samningunum en með Icesave III, samningnum sem kenndir hafa verið við Lee Buchheit.
Guðni segir að Ólafur Ragnar hafi verið að mörgu leyti góður forseti, en að mörgu leyti ekki. Hann hafi farið fram úr sér fyrir bankahrun í þjónkun við útrásina. Það hafi líka mögulega verið mistök hjá Ólafi Ragnars að hafa samþykkt Icesave I. Þá hafi sú ákvörðun Ólafs Ragnars að bjóða sig fram í sjötta sinn verið röng. En á heildina hafi Ólafur Ragnar verið farsæll forseti.
Guðni segir að forsetaframboð sitt verði háð á jákvæðum og skemmtilegum nótum. Hann muni aldrei hvetja fólk til að kjósa sig vegna þess að hinir séu svo slæmir. „Svo sjáum við hvað setur."
Hann telur ekki óhugsandi að Ólafur Ragnar dragi framboð sitt til baka. „Kannski lítur hann svo á að á sjónarsviðið sé kominn óskakandidatinn og því dragi hann sig í hlé."