Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er að hugsa um að hætta við framboð til embættisins. Hann lýsti því yfir 18. apríl síðastliðinn að hann væri hættur við að hætta við framboð og ætlaði að sækjast eftir að sitja sitt sjötta kjörtímabil. Ólafur Ragnar vildi ekki svara því með já-i eða nei-i hvort hann yrði á kjörseðlinum í sumar. Hann sé ekki búinn að lenda þeirri hugsun. Ástæða þess að hann er nú að hugsa sinn gang er sú að Guðni Th. Jóhannesson og Davíð Oddsson hafa boðið sig fram til embættisins. „Auðvitað blasir það við með þessum tveimur framboðum[...]er auðvitað staðan orðin breytt að því leyti að þjóðin á nú kost á því [...) að kjósa einstaklinga sem hafa þessa reynslu og þekkingu á embættinu." Þetta kom fram í þættinum Eyjunni á Stöð 2 í dag.
Ólafur Ragnar sagði að framboð Davíðs Oddssonar, sem tilkynnt var um í morgun, hefði breytt miklu varðandi forsetaframboðsmál, líkt og framboð Guðna Th., sem væri tvímælaust sá Íslendingur sem mest hefur rannsakað og skrifað um forsetaembættið. Davíð væri sá maður utan hans sjálfs sem lengst Íslendinga hefur setið í ríkisráði. Ólafur Ragnar bar fyrir sig óvissuna í samfélaginu þegar hann tilkynnti um áframhaldandi framboð, en sagði í dag að sú óvissa væri ekki alveg jafn mikið til staðar í dag og þegar hann tilkynnti um framboð sitt 18. apríl.