Guðni Th. Jóhannesson er með afgerandi forystu á aðra frambjóðendur í forsetakosningunum, samkvæmt nýrri skoðanakönnun frá MMR.
Guðni mælist með 59,2% fylgi en næsti frambjóðandi þar á eftir, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, mælist með 25,3%. Fylgi Ólafs Ragnars minnkaði um rúmlega 27 prósentustig frá síðustu könnun, sem gerð var í lok apríl. Í þeirri könnun fékk forsetinn 52,6% fylgi. Það var áður en Guðni tilkynnti um framboð sitt.
Andri Snær Magnason mældist með 8,8% fylgi, Halla Tómasdóttir með 1,7% og Davíð Oddsson mælist með 3,1% prósent. Davíð var bætt inn sem svarmöguleika um leið og hann tilkynnti framboð sitt í gær, en 27% svarenda í könnuninni fengu hann sem svarmöguleika.
Andri Snær missti líka mikið fylgi milli kannanna, eða yfir 20 prósentustig.
Könnunin var gerð dagana 6. til 9. maí. Heildarfjöldi svarenda var 947, en vikmörk í könnun sem þessari eru allt að 3,1%.