Magnús Orri Schram, sem sækist eftir því að verða kjörinn formaður Samfylkingarinnar í næsta mánuði, vill að Samfylkingin verði lögð niður og að stefnt verði að því að stofna „nýja nútímalega stjórnmálahreyfingu". Þetta kemur fram fram í aðsendri grein eftir hann sem birt er í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir að Samfylkingin þurfi að taka verulegum breytingum á næstu vikum til að geta gengt lykilhlutverki sem valkostur jafnaðarfólks í kosningum í haust. Ef Magnús Orri verði kjörinn formaður muni hann hefja samtal við aðra stjórnmálaflokka og fólk utan flokka, um nótum nýrrar hreyfingar með áherslu á auðlindir í almannaþágu, umhverfisvernd, nýja stjórnarskrá, jöfn tækifæri, öflugt velferðarkerfi og samkeppni í heilbrigðu atvinnulífi. „Við eigum að stofna nýja hreyfingu sem stefnir saman fólki frá miðju til vinstri. Hreyfingu sem rúmar fjölbreyttar raddir og mörg sjónarmið.[...] Staðan í stjórnmálum krefst þess að við séum hugrökk, köstum burt klyfjum fortíðar og séum tilbúin til að stíga saman næsta skref í sögu jafnaðarfólks á Íslandi."
Samfylkingin mælist með 7,4 prósent fylgi samkvæmt könnun sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Flokkurinn var stofnaður árið 2000 sem samruni fjögurra flokka til þess að vinna sem mótvægisafl við Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin var lengi vel næst stærsti flokkur landsins á flesta mælikvarða en hefur hrunið í fylgi á undanförnum árum og fengi einungis fimm þingmenn ef kosið yrði til þings í dag.