Níu af fjórtán forsetaframbjóðendum segjast vera búnir að safna tilskyldum fjölda undirskrifta sem þarf til að fá formlegt forsetaframboð gilt. Þeir sem hafa enn ekki safnað nægum fjölda eru Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes, Magnús Ingberg Jónsson, Elísabet Jökulsdóttir og Magnús Ingi Magnússon, eða Texas-Maggi. Í dag tilkynnti Ari Jósepsson að hann ætli ekki að bjóða sig fram, en hann sagist engu að síður við Fréttablaðið hafa safnað tilskildum fjölda. Þau sem segjast vera búin að safna nægum undirskriftum og ætla að skila inn í dag eru þau Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.
Skilafrestur rennur út í dag
Frambjóðendur þurfa að skila inn meðmælendum í öllum fjórðungum landsins í dag, undirskriftum 1.500 manns. Yfirkjörstjórn í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður taka á móti listum í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag á milli klukkan 13 og 15.
Farið verður yfir listana næstu viku og nöfn og kennitölur bornar saman við þjóðskrá og gengið úr skugga um að ekkert nafn sé tvisvar, þar sem það ógildir undirskriftina. Frambjóðendur fá svo nokkra daga fram að miðnætti 20. maí næstkomandi, föstudagurinn í næstu viku, til að lagfæra sína lista ef eitthvað vantar upp á.
Sex náðu inn árið 2012
Í síðustu forsetakosningum 2012 voru sex manns í framboði og var það sögulegur fjöldi. Framboð Ástþórs Magnússonar hafði verið dæmt ógilt þar sem ekki lá fyrir lögboðið vottorð frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis. Framboð Ástþórs hafði líka verið dæmt ógilt árið 2000, þegar hann náði ekki að skila inn tilskyldum fjölda meðmælenda á réttum tíma.
Frambjóðendur 2012 voru þau Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Hannes Bjarnason, Herdís Þorgeirsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson og Þóra Arnórsdóttir.
Fréttin var uppfærð klukkan 15:55 þegar RÚV greindi frá því að Ari Jósepsson væri hættur við framboð. Hann hafði áður sagt við Fréttablaðið að hann væri búinn að safna tilskyldum fjölda undirskrifta.