Erfingjar Ingvars Helgasonar og Sigríðar Guðmundsdóttur, systkini og frændfólk Júlíusar Vífils Ingvarssonar, ætla að fá erlent rannsóknarfyrirtæki til að leita að týndum sjóðum foreldra sinna erlendis. Um þetta verður fjallað í Kastljósi í kvöld.
Upplýsingar úr Panamaskjölunum um Júlíus Vífil settu málið í nýtt samhengi fyrir systkinum hans. Guðrún Ingvarsdóttir, systir hans, segir í Kastljósi að þetta hafi verið lífeyrissjóður foreldra þeirra sem hann hafi verið að „díla með“.
Eftir að Ingvar Helgason, sem átti samnefnt fyrirtæki ásamt konu sinni, féll frá hefur verið leitað að sjóðum sem hann segir að hafi verið til erlendis. Eftir að Sigríður lést í haust hafa staðið deilur vegna skipta dánarbús hjónanna. Deilurnar snúa að stærstu leyti að eignum sem meirihluti erfingja þeirra telur að vanti í dánarbúið. Það er varasjóður Ingvars sem hann mun hafa safnað á reikninga í erlendum banka af umboðslaunum frá erlendum framleiðendum sem hann átti í viðskiptum við. Ættingjarnir töldu að þetta hefðu verið nokkur hundruð milljónir þegar hann lést árið 1999, sem ætti að vera vel á annan milljarð króna í dag.
Greint var frá því í Kastljósi í byrjun apríl að Júlíus Vífill ætti vörslusjóð í Panama. Hann gaf út yfirlýsingu vegna málsins þar sem hann sagði að sjóðurinn hafi verið stofnaður í svissneskum banka til að mynda eftirlaunasjóðinn sinn, en að honum hafi verið ráðlagt að skrá stofnun hans í Panama. Sjóðurinn lúti svipuðu regluverki og sjálfseignastofnun. Aflandsfélagið heitir Silwood Foundation.
Tveimur dögum eftir Kastljósþáttinn sagði Júlíus Vífill af sér sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hann kvaddi sér hljóðs á borgarstjórnarfundi og sagði að ekki væri um félag að ræða heldur sjóð, sem m.a. færi ekki með fasteign og ekki mætti veðsetja eignir hans. Þrátt fyrir þetta ætlaði hann að segja af sér embætti. Í kjölfarið þakkaði hann öllum fyrir gott samstarf, sérstaklega starfsfólki borgarinnar og borgarfulltrúum. Þá hafði forsætisnefnd Reykjavíkurborgar samþykkt að kanna til hlítar aflandsfélagaeign borgarfulltrúa. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, var skráð fyrir tveimur félögum, einu á Tortóla og hinu í Panama.
Hefði ekki fengið undanþágu
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefði ekki fengið undanþágu frá fjármagnshöftum til að safna í eftirlaunasjóð sinn sem vistaður er í aflandsfélagi í Panama ef hann hefði óskað eftir slíkri hjá Seðlabankanum. Innlendum aðilum er óheimilt að flytja fjármuni af reikningum sínum hjá fjármálafyrirtæki hér á landi yfir á reikning í sinni eigu hjá fjármálafyrirtæki erlendis í þeim tilgangi einum að halda sparnaði erlendis. Þetta kemur fram í svörum Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Fréttablaðsins um málið.
Þar er þó einnig bent á að innlendur aðili geti átt fjármuni erlendis sem séu ekki háðir skilaskyldu hingað til lands. Það eigi til að mynda við fjármuni sem hafi verið í eigu viðkomandi áður en fjármagnshöft voru innleidd hér á landi þann 28. nóvember 2008. Í svari Seðlabankans segir: „Í slíkum tilvikum getur innlendur aðili flutt þá fjármuni á milli tveggja bankareikninga í sinni eigu erlendis þar sem það telst ekki fjármagnshreyfing á milli landa í skilningi laga um gjaldeyrismál.“