Systkini og systursonur Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, segja að Júlíus hafi viðurkennt fyrir þeim að í aflandsfélagi hans í Panama hafi verið týndir peningar foreldra þeirra. Þetta hafi hann gert eftir að Kastljós greindi frá sjóði hans, sem er í Panamaskjölunum svokölluðu, í byrjun apríl. Frá þessu var greint í Kastljósi í kvöld.
Fjölskyldan hefur lengi leitað að þessum sjóðum, sem faðir þeirra sagðist hafa átt í erlendum bönkum.
Foreldrar Júlíusar Vífils og systkina hans voru Ingvar Helgason og Sigríður Guðmundsdóttir, sem stofnuðu og byggðu upp bílaumboðið Ingvar Helgason og fyrirtækið Bílheima. Þegar Ingvar lést árið 1999 tóku þrír elstu bræðurnir í átta systkina hópi við rekstrinum. Guðmundur, Helgi og Júlíus Vífill tóku við rekstrinum og þá var fjórði hver bíll á Íslandi frá fyrirtækjum þeirra. Fjórum árum síðar var reksturinn kominn í mikinn vanda og hann var seldur. Fjölskyldan fékk 25 milljónir króna. Miklar deilur höfðu þá verið á milli systkinanna, bæði voru systkinin sem ekki voru við stjórnvölinn óánægð með að vera haldið utan við ýmsar ákvarðanir og milli bræðranna þriggja sem stjórnuðu voru líka deilur.
Áður en fyrirtækið var selt, eða í lok 2001, hafði huldufélag, sem hét Lindos Alliance, fjárfest fyrir tvær milljónir evra í fyrirtækjum fjölskyldunnar. Það þýddi rúmlega 18 prósenta hlut. Júlíus Vífill og Guðmundur kynntu þetta fyrir fjölskyldunni. Fjölskyldan fékk aldrei upplýsingar um það hver var á bak við þetta huldufélag, en Júlíus Vífill var umboðsmaður þess á hluthafa- og stjórnarfundum og hafði umboð til að undirrita samninga og taka ákvarðanir. Félagið var sagt vera í Lúxemborg.
Þessi hluti fjölskyldunnar telur að þeir bræður hafi verið á bak við félagið. „Það eru ekki miklar líkur á því að það komi rúmar tvær milljónir evra inn í Bílheima og Ingvar Helgason frá einhverjum einstaklingi sem að sest ekki í stjórn félagsins,“ sagði Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður Ingvars Ingvarssonar í Kastljósi í kvöld.
Týndra sjóða leitað
Varasjóðirnir sem talað er um voru tilkomnir vegna þess að Ingvar Helgason hafði alla tíð sett umboðslaun frá erlendum bílaframleiðendum inn á erlenda bankareikninga. Talið var að um nokkur hundruð milljónir væri að ræða. Eftir að fyrirtækin fóru úr höndum fjölskyldunnar árið 2004 var farið að spyrjast fyrir um þessa varasjóði, sem systkinin segja að faðir þeirra hafi oft sagt þeim frá og Guðrún segir að bræðurnir sem stjórnuðu fyrirtækinu hafi haft prókúru á. Móðir þeirra sendi meðal annars bréf til banka um Evrópu og í Bandaríkjunum en án árangurs.
Þegar móðir systkinanna, Sigríður, lést í september fyrir tæpu ári síðan kom fljótt upp ágreiningur, að mestu um varasjóðina, sem ekki eru í dánarbúinu.
Stuttu eftir áramót var ákveðið að kanna hvort hægt væri að finna út eigendur félagsins Lindos, sem hafði fjárfest í fjölskyldufyrirtækinu. Það var gert með hjálp fyrirtækisins K2, en félagið fannst hins vegar aldrei í Lúxemborg, heldur á Tortóla. Félagið er í Panamaskjölunum.
Þegar upplýsingar um aflandsfélag Júlíusar Vífils, Silwood foundation, í Kastljósi í byrjun apríl segir Guðrún Ingvarsdóttir að málið hafi verið sett í nýtt samhengi. Það hafi verið lífeyrissjóður foreldra þeirra sem hann hafi verið að „díla með“.
Í kjölfar þess að þau höfðu samband við lögmann Júlíusar segja tvö systkinin, og systursonur Júlíusar, að þau hafi fengið símtal frá honum þar sem hann hafi viðurkennt að peningarnir væru upprunalega sjóðir foreldra þeirra. Faðir þeirra hafi gefið bræðrunum leyfi til að sjá um sjóðina en hann hafi alltaf ætlað að skila þeim aftur inn í dánarbúið. Hins vegar segjast bæði Júlíus Vífill og Guðmundur Ágúst nú í gegnum lögmann sinn að þeir kannist ekkert við.
Meirihluti erfingjanna hefur því ákveðið að reyna að komast til botns í málinu með hjálp K2. En í Kastljósi í kvöld kom fram að þau teldu alls óvíst hvort takist að endurheimta sjóðina með rannsókn dánarbúsins.
Júlíus Vífill sagði í yfirlýsingu til Kastljóss að allt tal um að hann hafi sölsað undir sig annarra manna fé sé ýmist rógur eða illmælgi.