Rúmlega tuttugu prósent aðspurðra finnst embætti forseta Íslands skipta litlu máli fyrir íslenskt samfélag. Tveimur af hverjum þremur finnst það skipta miklu máli, þar af finnst um 30 prósent embættið vera nauðsynlegt. Um 12 prósent vilja leggja embættið niður, er fram kemur í nýrri könnun Maskínu um mikilvægi forsetaembættisins.
Töluverður munur er á afstöðu kynjanna, en um 35 prósent karla telja forsetaembættið nauðsynlegt í íslensku stjórnkerfi en rúmlega 25 prósent kvenna. Nánast sama hlutfall beggja kynja vilja þó leggja embættið niður.
Flestum þeim sem yngri eru finnst embættið nauðsynlegt, en um 47 prósent þeirra sem eru undir 25 ára aldri finnst það. Reykvíkingum og Austfirðingum finnst embættið ekki eins nauðsynlegt og íbúum annarra svæða.
Embættið nauðsynlegra hjá Framsókn
Kjósendum Framsóknarflokksins finnst embættið nauðsynlegra en kjósendum annarra flokka, en um 47 prósent þeirra telja það nauðsynlegt. Lægst er hlutfallið meðal kjósenda Vinstri grænna, en einungis 16 prósent eru á þeirri skoðun.
Sé afstaða til embættisins skoðuð eftir því hvaða forsetaframbjóðanda svarendur ætla sér að kjósa í næstu kosningum, kemur í ljós að hlutfall þeirra sem telja embættið nauðsynlegt er lægst meðal kjósenda Höllu Tómasdóttur og hæst meðal kjósenda Davíðs Oddssonar. Meðal þeirra sem telja embættið ekki nauðsynlegt, en vilja þó ekki leggja það niður, ætla flestir að kjósa Andra Snæ en fæstir Davíð Oddsson.
Ánægja með störf Ólafs Ragnars
Meirihluti svarenda er ánægður með störf Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, eða á bilinu 63 til 64 prósent. Þar af er þriðjungur mjög ánægður. Kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru ánægðari en kjósendur flokka í stjórnarandstöðunni. Ánægjan er minnst meðal þeirra sem ætla sér að kjósa Andra Snæ Magnason sem forseta í næstu kosningum.
Könnun Maskínu fór fram dagana 10. til 13. maí 2016 og voru svarendur 824 talsins.