Júlíus Vífill Ingvarsson sakar systkini sín um að hafa dregið sér tugi milljóna af bankareikningi móður þeirra. Þetta gerir hann í viðtali við Morgunblaðið í dag. Í blaðinu bregst hann við umfjöllun Kastljóss í gærkvöldi um hann og fjölskylduna.
Í Kasljósi í gær kom fram að tvö systkini Júlíusar og systursonur hans segja að hann hafi viðurkennt fyrir þeim að í aflandsfélagi hans í Panama hafi verið peningar upprunir frá foreldrum þeirra. Peninganna hafði móðir þeirra ásamt hluta fjölskyldunnar leitað í rúman áratug. Um var að ræða sjóð í erlendum banka sem faðir þeirra, Ingvar Helgason, hafði safnað umboðslaunum frá erlendum bílaframleiðendum inn á alla tíð.
Júlíus Vífill segir í Morgunblaðinu í dag að honum þyki þáttur Kastljóss í gær hafa verið lágpunktur í fréttaflutningi og hann hafi verið „yfirfullur af rangfærslum.“ Hann segist hafa leiðrétt margt í símtölum við stjórnendur þáttarins en lítill áhugi hafi verið á því að fá „nema eina bjagaða hlið á málinu.“ Hann útskýrir ekki í hverju þessar rangfærslur felist.
Fram kom hins vegar í Kastljósi í gær að ítrekað hefur verið haft samband við bæði Júlíus og bróður hans Guðmund Ágúst, bæði í símtölum og með tölvupósti. Þar hafi verið óskað svara við ýmsum spurningum um málið, og þeim verið boðið að koma í viðtal, en þeir bræður hafi kosið að svara engu.
Júlíus Vífill sagði hins vegar í yfirlýsingu í gær að ýmist væru ásakanir systkina hans algjör ósanningi eða ómerkileg illmælgi. Það sé ótrúlega ófyrirleitið að halda því fram að hann hafi gengið í eða sölsað undir sig sjóði í eigu annarra.
Fram kom einnig í Kastljósi í gær að móðir systkinanna, Sigríður Guðmundsdóttir, hefði sent bönkum í Evrópu og Bandaríkjunum bréf í leit sinni að þessum sjóði eiginmanns síns eftir að hann var látinn og fjölskyldufyrirtækið Ingvar Helgason hafði verið selt fyrir lítinn pening. Júlíus Vífill segir að það hafi verið erfitt að sjá systkini sín halda því fram að móðir þeirra hafi verið fjárþurfi í ellinni. „Hún var sem betur fer mjög vel efnum búin og skorti ekkert, en því miður þjáð í mörg ár af Alzheimer. Væntanlega hefðu sömu einstaklingar og tala með þessum hætti farið varlegar með fjármuni hennar ef sú hefði verið raunin í stað þess að draga sér tugi milljóna af bankareikningi hennar,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag.