Jón Rafn Ragnarsson, sem tilkynnt hefur verið um að verði framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingasviðs Samherja, hefur verið annar endurskoðenda ársreikninga Seðlabanka Íslands frá árinu 2010. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, tilkynnti um ráðningu hans á heimasíðu fyrirtækisins í gær.
Jón Rafn er viðskiptafræðingur og varð löggiltur endurskoðandi árið 2006. Hann hefur starfað hjá Deloitte í 15 ár og verið meðeigandi frá árinu 2008. Auk þess hefur hann kennt endurskoðun og reikningshald við Háskólann í Reykjavík um árabil.
Mikil átök hafa verið milli Samherja og Seðlabanka Íslands árum saman vegna rannsóknar bankans á meintum brotum fyrirtækisins á lögum og reglum um gjaldeyrismál sem síðar voru kærð til embættis sérstaks saksóknara. Það embætti felldi niður málið, sem var á hendur Þorsteini Má og þriggja lykilstarfsmanna fyrirtækisins, í fyrrahaust.
Þorsteinn Már sagði síðar í bréfi til starfsmanna Samherja að Seðlabankinn hefði farið fram með tilhæfulausar ásakanir og að „offorsi“ ruðst inn á skrifstofur Samherja í húsleitartilgangi, í mars 2012, án þess að hafa nokkuð í höndunum sem studdi þær aðgerðir eða ásakanir um lögbrot yfir höfuð. Málið hefði haft gríðarlegt tjón í för með sér fyrir fyrirtækið. Í viðtali við DV í september sagði Þorsteinn Már:„Ég segi að númer eitt, tvö og þrjú þá á Már Guðmundsson að bera ábyrgð. Hann er yfirmaður Seðlabankans. Hann á að bera þessa ábyrgð. Að sjálfsögðu á Már Guðmundsson að segja af sér. Hann er búinn að reka mál gagnvart hundruðum einstaklinga og fjölda fyrirtækja, að ástæðulausu. Þetta fólk hefur þurft að borga lögfræðikostnaðinn sinn sjálft.“
Ráðning Jón Rafns til Samherja hefur vakið athygli og umræður innan Seðlabanka Íslands, í ljósi þess sem á hefur gengið í samskiptum bankans og Samherja.