Phil Mickelson hefur verið einn allra besti kylfingur
heimsins undanfarinn áratug. Hann hefur þrívegis unnið Masters-mótið, og
margsinnis verið í allra fremstu röð á stórmótum. En honum er fleira til lista
lagt. Hann hefur skapað sér gott orð á meðal verðbréfamiðlara fyrir að hafa
gott auga fyrir viðskiptatækifærum.
Veðmálajöfurinn Billy
Stundum hefur hann líka fengið ábendingar, sem hafa gefið honum góða ávöxtun í viðskiptum. En hann hefur líka verið áhættusækinn veðmálaspilari og komst í mikla skuld árið 2012 við þekktan veðmálajöfur í Las Vegas, William Walters, sem oftast er kallaður Billy.
Þegar gera átti upp skuldina, fór Billy fram á það, í júlí 2012, að Mickelson keypti hlutabréf í fyrirtækinu Deans Food Co. Sagði Billy að viðskiptin myndu örugglega gefa vel af sér, og að Mickelson myndi hagnast á öllu saman, og gera upp við Billy um leið.
Hlutabréfin ruku upp
Mickelson fór að ráðum hans, og keypti hlutabréf í fyrirtækinu í þremur aðskildum viðskiptum á sama viðskiptadeginum. Aðeins viku síðar hækkaði virði bréfanna um 40 prósent, eftir að tilkynning um gott gengi þess var birt. Billy virtist hafa búið innherjaupplýsingum um að rekstur fyrirtækisins.
Hagnaður Mickelson á viðskiptunum var 931 þúsund Bandaríkjadalir, eða um 120 milljónir króna, samkvæmt fréttum Bloomberg.
Bandarísk yfirvöld hófu árið 2013 rannsókn á viðskiptunum, en árið 2014 voru sagðar fréttir af því að Mickelson, veðmálajöfurinn Billy og stjórnarformaður Deans Food Co., Tom C. Davis, væru til rannsóknar vegna innherjaviðskipta. Rannsókn málsins leiddi til þess að Billy og Davis voru ákærðir, og játa Davis sök í síðustu viku.
Ekki þótti sannað að Mickelson hefði brotið af sér, en hagnaður hans var gerður upptækur, þar sem viðskiptin fóru fram á grundvelli ólöglegra innherjaupplýsinga.
Mickelson hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu, og létu lögfræðingar hans í ljósi óánægju með þau málalok að hann þyrfti að skila hagnaðinum af viðskiptunum.