Níu frambjóðendur verða í framboði til kjörs forseta Íslands, en innanríkisráðuneytið hefur staðfest þetta með auglýsingu í dag. Aldrei hafa fleiri verið í kjöri til embættis forseta Íslands en nú.
Frambjóðendurnir níu eru Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson.
Þessi níu skiluðu inn öllum tilskyldum gögnum til innanríkisráðuneytisins, þar með talið nægilegum fjölda meðmælenda. Einn frambjóðandi til viðbótar skilaði inn framboði til ráðuneytisins en hafði ekki náð nægilegum fjölda meðmælenda. Það er Magnús Ingberg Jónsson, sem hefur gefið út að hann íhugi að kæra framkvæmd kosninganna vegna þess að hann er ósáttur við framkvæmd og upplýsingagjöf tengda undirskriftalistunum.
Guðni Th. Jóhannesson fengi um tvo þriðju atkvæða, eða 65,6%, í forsetakosningum samkvæmt nýrri könnun MMR sem birt var í morgun. Davíð Oddsson mælist með 18,1% fylgi. Andri Snær Magnason mælist með 11% fylgi og Halla Tómasdóttir 2,2%. Aðrir frambjóðendur mælast samanlagt með þrjú prósent.