Nox Medical hlaut í dag útflutningsverðlaun forseta Íslands við hátiðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin hlaut fyrirtækið fyrir að hafa náð einstökum árangri á heimsvísu í þróun og smíði á lækningavörum sem notaðar eru til greiningar á svefntruflunum.
Nox Medical er tækni- og hugvitsfyrirtæki sem stofnað var árið 2006. Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, fór ítarlega yfir sögu fyrirtækisins, aðstæður og framtíðaráform þess í viðtali við Kjarnann í mars síðastliðnum.
Þar kom fram að Nox Medical hafi farið frá því að vera sjö manna teymi með aðstöðu innan veggja Nýsköpunarmiðstöðvarinnar í Keldaholti fyrir tíu árum í að vera fyrirtæki með tugi vel menntaðra og eftirsóknarverðra starfsmanna í dag. Pétur sagði að skipta hafi mátt sögu fyrirtækisins upp í þrjú tímabil.Það fyrsta, árin 2007 til 2008 átti sér stað vöruþróun. Næstu þrjú hófst tekjuöflun með sölu á vörum og stöðugleika var náð. Frá árinu 2012 hefur átt sér stað „grimmur og brattur vaxtaferill,“ eins og og Pétur kallaði hann. Frá þeim tíma hefur fyrirtækið tífaldað veltu sína úr einni milljón evra árið 2011 í nærri tíu milljónir evra í fyrra. Tekjur fyrirtækisins koma nær einvörðungu frá útflutningi. „Við erum orðin pínulítil stóriðja í samhengi hlutanna. Veltan í íslenskum krónum í fyrra er á bilinu 1.500 til 1.600 milljónir króna. Við erum samt hvergi hætt. Við erum rétt að byrja. Það eru mikil vaxtatækifæri í þessum svefnbransa. Svefngreining á erindi víða.,“ sagði Pétur.
Helgi Tómasson listdansstjóri fékk við sama tækifæri sérstaka heiðursviðurkenningu sem veitt er einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð. Fyrri handhafar þessara heiðursverðlauna eru m.a. Björk, Arnaldur Indriðason og ljósmyndarinn RAX.
Í fréttatilkynningu Íslandsstofu vegna verðlaunanna segir:
„Helgi Tómasson er einn virtasti dansfrömuður heims, og hefur vakið athygli sem bæði dansari, listdansstjóri og danshöfundur í yfir fjörtíu ár. Í fyrstu alþjóðlegu balletkeppninni sem haldin var í Moskvu árið 1969 hafnaði Helgi í öðru sæti á eftir Mikhail Baryshnikov. Fljótlega eftir þetta var Helgi ráðinn til New York City Ballet þar sem hann dansaði við frábæran orðstír í hálfan annan áratug.
Árið 1985 lagði Helgi ballettskóna á hilluna og réð sig í stöðu listræns stjórnanda San Francisco-ballettsins, elsta starfandi listdansflokks Bandaríkjanna, þar sem hann hefur starfað allar götur síðan. Undir stjórn Helga hefur San Francisco-ballettinn náð þeim árangri að vera í hópi bestu dansflokka samtímans, eftirsóttur um allan heim. Sem helsti danshöfundur flokksins hefur Helgi samið fjölda balletta, sem fluttir hafa verið á leiksviðum um víða veröld við fádæma góðar undirtektir."
Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 28. sinn en þau voru fyrst veitt árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Bláa lónið, CCP, Hampiðjan, Trefjar ehf og Ferðaskrifstofa bænda og á síðasta ári hlaut Icelandair Group verðlaunin.
Úthlutunarreglur kveða á um að Útflutningsverðlaun forseta Íslands skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.
Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Örnólfur Thorsson, frá embætti forseta Íslands, Runólfur Smári Steindórsson, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Björgólfur Jóhannsson frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands og Vilborg Einarsdóttir frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.