Ari Edwald, fyrrum forstjóri 365 miðla og nú forstjóri Mjólkursamsölunnar, situr í stjórn félags sem stofnað var utan um forsetaframboð Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, þann 9. maí síðastliðinn. Stjórnarformaður þess félags er Eyþór Arnalds, fyrrverandi oddviti Sjálfstæðismanna í Árborg og fjárfestir.
Auk þeirra tveggja sitja í stjórn félagsins Erla Gunnlaugsdóttir, fjölmiðlafulltrúi framboðs Davíðs. Hún er dóttir Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar, stjórnarformanns Ísfélags Vestmannaeyja, en eigendur þess eiga stóran hlut í Morgunblaðinu.
Frá þessu er greint í DV í dag.
Þar segir einnig að félag utan um framboð Guðna Th. Jóhannessonar hafi verið stofnað sex dögum áður en félag Davíðs, eða 2. maí. Í stjórn þess sitja Þorgerður Anna Arnardóttir, talsmaður framboðs Guðna, Eliza Reid, eiginkona hans, og hæstaréttarlögmaðurinn Lúðvik Örn Steinarsson. Kosningasjóður Andra Snæs Magnasonar var stofnaður í janúar og sitja þeir Brynjar Pétursson Young, stundarkennari við HR, og Pálmi Guðmundsson, forstöðumaður ljósvakamiðla Símans, í stjórn hans. Ekki kemur fram í DV hvenær framboðsfélag Höllu Tómasdóttur var stofnað en þar segir að Brimar Aðalsteinsson sé stjórnarformaður þess.
Samkvæmt síðustu kosningaspá Kjarnans, sem birt var 29. maí, er Guðni Th. með 60,5 prósent stuðning í embætti forseta Íslands. Davíð kemur næst á eftir honum með 20,3 prósent fylgi og Andri Snær mælist með 11,7 prósent. Halla mælist með 3,8 prósent stuðning kjósenda.