Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, fær 80 prósent af launum forsætisráðherra í eftirlaun. Hann fær hærra hlutfall af launum forsætisráðherra í eftirlaun en aðrir fyrrverandi forsætisráðherrar sem þeirra njóta sökum þess að hann sat mun lengur en þau á þeim stóli. Davíð segir að tröllasögur um mikil viðbótareftirlaun hans vegna starfa fyrir Seðlabanka Íslands séu ekki sannar. Önnur eftirlaun hans lúti lífeyrisreglum og hann fái sem dæmi um 70 þúsund krónur greiddar eftir skatta í lífeyrissjóðslaun sem fyrrverandi seðlabankastjóri. Þetta kemur fram í myndböndum sem framboð Davíðs, en hann sækist eftir því að verða næsti forseti Íslands, hefur hlaðið upp á Youtube.
Samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar, sem gefið var út í júlí 2015, var Davíð með um 3,3 milljónir króna í mánaðartekjur á árinu 2014. Þær greiðslur samanstanda af launum hans fyrir að ritstýra Morgunblaðinu og eftirlaunum hans. Samkvæmt úrskurði Kjararáðs frá því í nóvember 2015 eru laun forsætisráðherra 1.391 þúsund krónur og því fær Davíð 1.113 þúsund krónur í forsætisráðherraeftirlaun.
Í þeim myndböndum sem framboð Davíðs birtir, sem eru alls 30 talsins, svarar Davíð ýmsum spurningum um atriði úr fortíðinni sem hann telur að rangt sé farið með, sýn sína á forsetaembættið og hvað honum finnist um ýmsa hluti, til dæmis jafnrétti kynjanna.
Í einu myndbandinu segir Davíð að það hafi verið þingmannanefnd, ekki hann sjálfur, sem hafi ákveðið að gera lagabreytingu um eftirlaun þingmanna og ráðherra. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafi notið þeirra helst, enda hafi lögin þýtt að laun þeirra hækkuðu samstundis um 50 prósent. Aðrir forsætisráðherra sem nutu eftirlauna samkvæmt lögunum hafi verið Þorsteinn Pálsson, Geir. H Haarde, Jóhanna Sigurðardóttir og Halldór Ásgrímsson, sem nú er látinn.
Þau fengu öll greidd 70 prósent af launum forsætisráðherra hverju sinni, en Davíð 80 prósent sökum þess hversu lengi hann sat á þeim stóli. Í lok eins myndbandsins segir Davíð að einhvern tímann verði sú saga sögð hver aðdragandinn af því að lögin voru sett var. Sú saga er þó ekki sögð í umræddum myndböndum.
Eftirlaunalögin umdeildu, sem hækkuðu eftirlaun fyrrverandi ráðherra og þingmanna umtalsvert, voru sett árið 2003. Þau voru afnumin í mars 2009.