Alls segjast 69,5 prósent þeirra sem tóku afstöðu í nýrri skoðanakönnun miðla 365 að þeir vilji þingkosningar í haust. 30,5 prósent segja að þeir vilji kjósa vorið 2017. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þegar öll svör eru skoðuð sést að 60 prósent aðspurðra vilja haustkosningar, 26 prósent vilja kjósa næsta vor, tólf prósent segjast ekki vita hvenær þau vilja kjósa og tvö prósent vilja ekki svara. Konur vilja frekar kjósa í haust en karlar og fólk undir fimmtugu er hlynntari því en eldra fólk.
Könnunin var gerð 30. maí. Hringt var í 919 manns þar til náðist í 772 og var svarhlutfallið því 84 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Alls tóku 85,7 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.
Þegar Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynntu um myndun nýrrar ríkisstjórnar í stiga Alþingishússins í byrjun apríl, eftir að upplýsingar úr Panamaskjölunum um aflandsfélagaeign ráðamanna höfðu dregið á þriðja tug þúsund manna á Austurvöll til að mótmæla, sögðu þeir að kosið yrði í haust. Kjörtímabilið verður þar með stytt um nokkra mánuði, en það hefði runnið sitt skeið í vor.
Kjarninn greindi frá því í lok síðustu viku að mjög skiptar skoðanir eru meðal stjórnarþingmanna um það hvort rétt hafi verið að boða til kosninga í haust. Eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, lýsti efasemdum sínum um kosningar í haust hafa nokkrir fylgt í kjölfarið á opinberum vettvangi. Kjarninn hafði samband við þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um málið. Flestir framsóknarmenn sem náðist í voru þeirrar skoðunar að ekki hefði þurft að flýta kosningum. Sú ákvörðun hafi bara verið tekin til að róa ástandið í samfélaginu á örlagaríkum tímum.
Hægt er að lesa um afstöðu allra stjórnarþingmanna til kosninga í haust hér.