Eva Magnúsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Eva hóf störf í ráðuneytinu í dag, en hún hefur undanfarin tvö ár rekið ráðgjafarfyrirtækið Podium ehf. Eva er með MBA gráðu í viðskiptafræði og stjórnun, diplómu í hagnýtri fjölmiðlun og BA gráðu í þjóðháttafræði og leikhús- og bókmenntafræðum, að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Stefnt er að því að halda þingkosningar í haust svo ljóst er að ráðning Evu er til skamms tíma. Eva starfaði fyrir framboð Hrannars Péturssonar til forseta Íslands, og sendi meðal annars út allar fréttatilkynningar um framboð hans á meðan á því stóð, en hann dró framboð sitt til baka eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti að hann hygðist bjóða sig fram á ný. Sem kunnugt er dró Ólafur Ragnar svo sitt framboð til baka skömmu síðar.
Hrannar var ráðinn aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra sléttri viku eftir að hann dró framboð sitt til forseta til baka í lok apríl síðastliðins.
Ragnheiður Elín hefur allt kjörtímabilið aðeins haft eitt aðstoðarmann, Ingvar Pétur Guðbjörnsson.