Hagnaður Síldarvinnslunnar í fyrra nam 6,2 milljörðum króna, og var ákveðið á aðalfundi félagsins í gær að greiða 15 milljónir Bandaríkjadala til hluthafa, en miðað við núverandi gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal, nemur það um 1,9 milljörðum króna.
Óhætt er að segja að Síldarvinnslan standi afar vel fjárhagslega og má segja að árið í fyrra hafi verið í takt við afar gott gengi á síðustu árum, sem meðal annars var til umfjöllunar í fréttaskýringu Kjarnans árið 2014.
Rekstrartekjur samstæðunnar á árinu 2015 voru alls 27 milljarðar króna og rekstrargjöld námu 18,9 milljörðum króna. EBITDA var 8,2 milljarðar króna. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 410 milljónir króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir reiknaða skatta nam 7,6 milljörðum króna. Reiknaður tekjuskattur nam 1.420 milljónum króna og var hagnaður ársins því 6,2 milljarðar króna, eins og áður sagði.
Á árinu 2015 greiddi Síldarvinnslan og starfsmenn fyrirtækisins 5,1 milljarð króna til hins opinbera. Greiddur tekjuskattur er 1.240 milljónir króna og veiðigjöld voru tæplega 900 milljónir. Á meðal gjalda sem greidd voru á árinu eru 82 milljónir króna í stimpilgjöld vegna kaupa fyrirtækisins á Beiti NK og 100 milljónir króna í kolefnis- og raforkugjald, segir í tilkynningu félagsins.
Samtals námu fjárfestingar félagsins 5,4 milljörðum króna og voru þær þáttur í að auka verðmætasköpun félagsins ásamt því að bæta aðbúnað og öryggi starfsmanna. Helstu fjárfestingarnar voru kaup á nýju uppsjávarveiðiskipi frá Danmörku, Beiti NK 123. Skipið var smíðað árið 2014 og ber 3.200 tonn. „Eins var haldið áfram á braut uppbyggingar í uppsjávarvinnslu félagsins. Reist var viðbygging austan við fiskiðjuverið og er sú bygging liður í að auka afköst vinnslunnar í 900 til 1.000 tonn á sólarhring,“ segir á vef Síldarvinnslunnar.
Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar störfuðu 334 til sjós og lands um síðustu áramót. Launagreiðslur félagsins voru rúmar 4,1 milljörðum króna á árinu 2015 en af þeim greiddu starfsmenn 1.370 milljónir í skatta, segir á vef Síldarvinnslunnar.
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2015 voru bókfærðar á 54,4 milljarða króna. Veltufjármunir voru bókfærðir á 9,1 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 20,7 milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 33,7 milljarðar króna. Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 62 prósent.
Þar var stjórn félagsins endurkjörin að öðru leyti en því að Freysteinn Bjarnason hvarf úr henni en Guðmundur Rafnkell Gíslason var kjörinn í hans stað. Freysteini voru þökkuð góð störf í þágu Síldarvinnslunnar en hann hefur átt sæti í stjórninni frá árinu 2005.
Eftirtalin voru kjörin í stjórnina á aðalfundinum í gær. Anna Guðmundsdóttir, Björk Þórarinsdóttir, Guðmundur Rafnkell Gíslason, Ingi Jóhann Guðmundsson og Þorsteinn Már Baldvinsson.
Helstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji (45% hlutur), Gjögur (34%) og SÚN í Neskaupstað (11%).