Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, ætlar ekki að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, ef sá síðarnefndi ákveður að bjóða sig aftur fram til formanns. Þetta sagði Sigurður Ingi í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun.
Sigurður Ingi sagði þar að það væri ekkert launungarmál að ýmsar raddir væru uppi innan flokksins um hvað skyldi gera varðandi flokksforystuna, en Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra í kjölfar þess að opinberað var að hann hefði átt aflandsfélagið Wintris, skráð á Bresku Jómfrúareyjunum, með eiginkonu sinni. Félagið, sem yfir milljarð króna í eignum, lýsti kröfum í slitabú föllnu bankanna. Það er í dag skráð einungis í eigu eiginkonu Sigmundar Davíðs.
Eiginkona Sigmundar Davíðs sagði frá tilvist Wintris á Facebook í mars. Nokkrum dögum áður, þann 11. mars, hafði þáverandi forsætisráðherra verið spurður út í félagið í frægu viðtali við sænskan sjónvarpsmann. Það viðtal var síðan sýnt í sérstökum Kastljósþætti 3. apríl sem fjallaði um aflandsfélagaeign kjörinna fulltrúa á Íslandi. Sigurður Ingi sagði í Sprengisandi að það hefði verið betra ef Sigmundur Davíð hefði stigið strax fram og skýrt málið. Hann hefði getað upplýst flokkinn og þjóðina alla.
Forsætisráðherrann sagði það væri alveg öruggt að kosið yrði í haust. Það væri ekki hægt að hætta við kosningar við þær aðstæður sem uppi væru. Þá dragi enginn framsóknarmaður það í efa að mikilvægt væri að halda flokksþing fyrir kosningar í haust og kjósa forystu flokksins. Sigurður Ingi sagðist styðja Sigmund Davíð til áframhaldandi formennsku og að hann myndi ekki bjóða sig fram gegn honum ef Sigmundur Davíð ákveður að bjóða sig aftur fram.
Sigmundur Davíð flutti yfirlitsræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarmanna í gær. Þar ræddi hann Wintris-viðtalið og sagði m.a. að hann hefði verið leiddur í gildru af fjölmiðlamönnum og að um óþokkabragð hefði verið að ræða sem snérist um að koma höggi á hann og Framsóknarflokkinn. Sigmundur Davíð sagði einnig í ræðu sinn að í ótal skipti hafi verið reynt að ráða hann af dögum, ekki í eiginlegri merkingu, heldur með mannorðsmorði. Það sé eins og að það séu gefin út heilu dagblöðin bara til að klekkja á Framsóknarflokknum.
Þeir sem stóðu að viðtalinu sendi frá sér yfirlýsingu vegna ásakana Sigmundar Davíðs í gær. Þar sagði m.a. að blaðafulltrúi forsætisráðherra hafi hringt í Nils Hanson, aðalritstjóra fréttaskýringaþáttarins Uppdrag Granskning sem sýndur er í sænska ríkissjónvarpinu, strax eftir að Sven Bergman, fréttamaður þáttarins, hafði tekið viðtalið við Sigmund Davíð þann 11. mars og krafist þess að hluta viðtalsins yrði eytt. Sá hluti sem blaðafulltrúinn vildi að yrði eytt snéri að spurningum og svörum um Wintris. Undir yfirlýsinguna skrifuðu starfsmenn Reykjavik Media, Kastljóss, Uppdrag Granskning og alþjóðlegu blaðamannasamtakanna ICIJ. Í yfirlýsingunni voru einnig birtir fjölmargir tölvupóstar sem sýndu að Sigmundi Davíð var, í gegnum Jóhannes Þór Skúlason aðstoðarmann sinn, margoft boðið að koma í annað viðtal til að skýra málefni Wintris. Hann hafnaði því hins vegar.