Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur átt fáheyrðri velgengni að fagna í rekstri á liðnum árum, og sést það glögglega á rekstrartölum félagsins úr ársreikningum. Samanlagður hagnaður fyrirtækisins, eftir skatta, á árunum 2010 til og með 2015 nemur 33,1 milljarði króna. Þá jukust eignir samstæðu félagsins á fyrrnefndu tímabili úr 27 milljörðum árið 2010 í 54,4 milljarða í lok árs í fyrra.
Helstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji (45% hlutur), Gjögur (34%) og SÚN í Neskaupstað (11%).
Hagnaður Síldarvinnslunnar, eftir rekstrarárum, hefur verið eftirfarandi:
- 2010: 3,5 milljarðar
- 2011: 4,8 milljarðar
- 2012: 7 milljarðar
- 2013: 5,6 milljarðar
- 2014: 6 milljarðar
- 2015: 6,2 milljarðar
Makrílveiði og vinnsla hefur verið mikilvægur hluti af rekstrinum á undanförnum árum, og má segja að mikil ganga hans inn í íslenska lögsögu hafi verið mikill happafengur fyrir fyrirtækið.
Hjá samstæðu Síldarvinnslunnar störfuðu 334 til sjós og lands um síðustu áramót. Launagreiðslur félagsins voru rúmar 4,1 milljörðum króna á árinu 2015 en af þeim greiddu starfsmenn 1.370 milljónir í skatta, segir á vef Síldarvinnslunnar.
Heildareignir samstæðunnar í árslok 2015 voru bókfærðar á 54,4 milljarða króna, eins og áður segir. Veltufjármunir voru bókfærðir á 9,1 milljarða króna og skuldir og skuldbindingar samstæðunnar námu 20,7 milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar í árslok var 33,7 milljarðar króna. Í árslok var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 62 prósent.
Á haustdögum 2014 var tilkynnt um kaup Síldarvinnslunnar á útgerðarfyrirtækinu Gullbergi ehf. á Seyðisfirði. Jafnframt keypti Síldarvinnslan, sem er með höfuðstöðvar og rætur í Neskaupsstað, húsnæði og búnað fiskvinnslunnar Brimbergs sem var í eigu sömu aðila. Með þessum kaupum festi Síldarvinnslan sig í sessi sem risi í íslenskum sjávarútvegi.
Aflaheimildir hafa safnast saman á nokkrum stöðum þar sem öflugustu fyrirtækin eru (dæmi nefnd í sviga). Nú eru stærstu útgerðarstaðirnar Vestmannaeyjar (Ísfélag Vestmannaeyja og Vinnslustöðin), Neskaupstaður (Síldarvinnslan) , Akureyri (Samherji), Sauðárkrókur (FISK Seafood), Hornafjörður (Skinney-Þinganes), Grindavík (Þorbjörn og Vísir) og Reykjavík (Brim og HB Grandi). Starfsemi fyrirtækja á þessum stöðum teygir sig hins vegar víða um landið.
Síðustu stóru viðskipti í sjávarútvegi hér á landi, voru í síðustu viku þegar Brim keypti Ögurvík hf. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og stærsti eigandi Brims, sagði við það tilefni við Kjarnann að kaupin styrktu útgerð hans og að stærðarhagkvæmni náist fram. „Brim gerir út þrjá frystitogara frá Reykjavík og með kaupunum á Vigra styrkist rekstur félagsins. Það hefur sýnt sig að með stærri einingum verða íslensk sjávarútvegsfyrirtæki öflugri. Það á ekki síst við á erlendum mörkuðum þar sem íslenskur sjávarútvegur á í harðri samkeppni um sölu afurðanna. Það má ekki gleymast að þar ræðst afkoma okkar að stórum hluta,“ sagði Guðmundur.