Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, segir að Björgólfur Thor Björgólfsson hafi haft augastað á því að taka yfir Glitni fyrir hrun og hafi þess vegna verið mótfallinn því að Róbert keypti hlut í þeim banka í árslok 2007. „Hann hafði alltaf haft augastað á að taka yfir Glitni og hugnaðist það mjög illa. Það var kannski hans vendipunktur í okkar samstarfi. minn vendipunktur var frá fyrsta degi og á þeim degi að þurfa ekki að vinna með honum yfir höfuð.“ Þetta kemur fram í viðtali við Róbert í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í dag.
Þar segir Róbert að hann hafi aldrei kunnað við að vinna með Björgólfi Thor og hans fólki, en mennirnir unnu náið saman þegar Björgólfur Thor var aðaleigandi Actavis og Róbert forstjóri þess fyrirtækis. Hann hafi ákveðið að hætta sem forstjóri fyrirtækisins nokkrum mánuðum fyrir hrun. Þótt Deutsche Bank, sem lánaði Björgólfi Thor fyrir yfirtökunni á Actavis, hafi boðið Róberti gull og græna skóga gegn því að sitja áfram í stjórn fyrirtækisins hafi hann hafnað því. „Þá fékk ég þau skilaboð að Deutsche Bank, með Björgólf þá þar á bak við, myndi tryggja það að allar mínar eignir í Actavis yrðu teknar af mér. Þau stóðu bara fyllilega við það. Þannig að Björgólfur fékk gefins þann hlut sem ég átti í félaginu sem í dag eru umtalsverð verðmæti og hlaupa á hundruðum milljóna dollara.“
Langvinnar deilur
Í ágúst 2008 lét Róbert af störfum hjá lyfjafyrirtækinu Actavis, eftir að hafa verið forstjóri þess í níu ár. Björgólfur Thor segir að Róbert hafi verið rekinn en Róbert segir það vera rangt. Hann hafi einfaldlega viljað hætta, líkt og kemur fram hér að ofan.
Síðan að þetta átti sér stað hafa verið hnútaköst á milli mannanna í fjölmiðlum og fyrir dómstólum. Björgólfur Thor stefndi bæði Róberti og Árna Harðarsyni, nánasta samstarfsmanni hans, fyrir að hafa á ólögmætan hátt dregið að sér fjórar milljónir evra frá sér og nýtt í eigin þágu. Hann vill að þeir greiði sér skaðabætur vegna þessa. Róbert og Árni hafa ítrekað hafnað þessum málatilbúnaði, sagt stefnuna tilefnislausa og að hún eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.
Í október 2015 var svo þingfest hópmálsókn fyrrum hluthafa í Landsbankanum gegn Björgólfi Thor. Kjarninn greindi frá því tveimur dögum síðar að félag í eigu Árna, sem í dag er stjórnarmaður og lögmaður Alvogen, ætti um 60 prósent þeirra hlutabréfa sem væru að baki hópmálsókninni. Árni á hlutabréfin, sem hann keypti af islenskum lífeyrissjóðum í vikunni á undan, í gegnum félag sem heitir Urriðahæð ehf. Samtals greiddi Árni á milli 25 til 30 milljónir króna fyrir hlutabréfin, sem eru verðlaus nema að til hefði tekist að fá viðurkennt fyrir dómstólum að Björgólfur Thor ætti að greiða fyrrum hluthöfum Landsbankans skaðabætur.
Til viðbótar þurfti Urriðhæð að greiða sinn hluta málskostnaðar. Hann gat auðveldlega hlaupið á tugum milljóna króna ef málið hefði verið dómtekið. Því er ljóst að Árni lagði í umtalsverðan kostnað til að taka þátt í hópmálsókninni og styrkja grundvöll hennar.
Björgólfur Thor neitaði ávallt sök og í byrjun maí komust íslenskir dómstólar að þeirri niðurstöðu að málið væri ekki tækt til fyrirtöku eins og það var framsett. Málsóknarfélagið gæti þó haldið málinu áfram með nýrri stefnu sem gerð væri í samræmi við leiðbeiningar Hæstaréttar.
Í færslu á heimasíðu sinni sem birtist í kjölfarið sagði Björgólfur Thor eftirfarandi um málið: „Þessi ófrægingarleiðangur, undir stjórn Árna Harðarsonar og Róberts Wessman, hefur reynst þeim köppum lítil frægðarför. Árni og Róbert hafa líklega þegar varið um 100 milljónum króna í þennan rakalausa og ruglingslega málarekstur. Þeir fengu hóp fyrrum hluthafa Landsbankans til að leggja nafn sitt við feigðarflanið, en sjálfir fara þeir fyrir 2/3 hlutum málsóknarfélagsins. Þá fékk hópmálsóknarfélagið drjúgan tíma í fjölmiðlum til að rekja í smáatriðum allan málatilbúnað sinn, sem nú hefur fengið falleinkunn hjá Hæstarétti.“