Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, ætlar að leggja fram frumvarp á Alþingi þegar það kemur saman aftur sem mundi koma í veg fyrir að norðaustur/suðvestur-flugbrautinni verði lokað. Hæstiréttur staðfesti á dögunum dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að brautinni skyldi lokað í samræmi við samkomulag innanríkisráðherra við Reykjavíkurborg.
„Frumvarpið myndi festa í lög að flugvöllurinn yrði í óbreyttri mynd, á þeim stað sem hann er, þar til Alþingi hefur tekið ákvörðun um annan valkost, og enn fremur að sá valkostur sé tilbúinn,“ er haft eftir Höskuldi í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að ekki megi loka „mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnnar þegar ekkert annað er í boði, heldur aðeins vangaveltur um hvað muni koma í staðinn.“
Reykjavíkurborg stefndi ríkinu vegna ákvörðunar Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, um að standa ekki við samkomulag sem gert var haustið 2013, í tíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í innanríkisráðuneytinu við Jón Gnarr þegar hann var borgarstjóri, um að loka þriðju flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli. Uppbygging íbúðahvefis er þegar hafin við austari enda flugbrautarinnar samkvæmt aðalskipulagi sem unnið var í samræmi við samkomulag borgarinnar og ríkisins.
Héraðsdómur dæmdi í málinu í mars og komst að þeirri niðurstöðu að loka eigi brautinni. Í dómsorði sagði að innanríkisráðherra eigi að endurskoða skipulagsreglur til samræmis við þá lokun. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms á fimmtudag.
Forsvarsmenn flugfélaganna sem sinna innanlandsflugi eru einnig samtali við Morgunblaðið. Þeir eru á sama máli um að lokun þriðju flugbrautarinnar í Vatnsmýri muni hafa áhrif á rekstur félaga þeirra. Reykjavíkurflugvöllur sé ekki oft lokaður; aðeins nokkra daga á ári, en þeim dögum mun fjölga um helming verði flugbrautinni lokað samkvæmt áætlunum Flugfélags Íslands.
Lokun hefur lengi staðið til
Lokun brautarinnar hefur staðið árum saman. Árið 2005 undirrituðu þáverandi borgarstjóri Steinunn Valdís Óskarsdóttir og þáverandi samgönguráðherra Sturla Böðvarsson samkomulag um samgöngumiðstöð sem rísa skyldi í Vatnsmýrinni. Hún átti að rísa þar sem braut 06/24 er. Árið 2009 undirrituðu Kristján L. Möller, þáverandi samgönguráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, samkomulag um að brautin ætti að loka, en þó var sá fyrirvari á því samkomulagi að það myndi rísa samgöngumiðstöð við enda brautar 06/24.
Í október 2013 undirritaði Hanna Birna, þá innanríkisráðherra, og Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, samþykkt um að ljúka vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll. Þegar því yrði lokið átti að tilkynna um lokun brautarinnar. Í desember 2013 óskaði innanríkisráðuneytið eftir því að undirbúningur yrði hafin að lokun flugbrautarinnar, með þeim fyrirvara að ekkert yrði gert fyrr en að Rögnunefndin svokallaða myndi skila niðurstöðum sínum. Skýrslu hennar var skilað í fyrra og niðurstaða nefndarinnar leysti ekki deilur um framtíð Reykjavíkurflugvallar á nokkurn hátt. Ákvörðun á grundvelli tillagna hennar liggur enn ekki fyrir.