Píratar ætla að halda prófkjör í öllum kjördæmum í sumar til að raða á framboðslista flokksins fyrir alþingiskosningar í haust. Aðalfundur flokksins var haldinn um helgina og framboðslistarnir verði tilbúnir í ágúst. Morgunblaðið greinir frá.
Píratar hafa mælst stærsta og næst stærsta framboðið til Alþingis frá árámótum samkvæmt Kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar. Þrír þingmenn sitja á Alþingi fyrir Pírata, þau Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Ásta Guðrún Helgadóttir. Þau ætla öll að gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu eins og Kjarninn hefur greint frá.
Á aðalfundinum var einnig kosið í framkvæmdaráð flokksins. 27 gáfu kost á sér en aðeins fimm fá fast sæti í ráðinu og fimm manns til vara. Aðalmenn eru Elín Ýr Arnar-Hafdísardóttir (formaður), Sunna Rós Víðisdóttir, Þórlaug Ágústsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Eysteinn Jónsson, Halldóra Sigrún Ásgeirsdóttir og Jason Steinþórsson. Tveir síðustu voru valdir með slembiúrtaki úr hópi fundargesta.
Stefnumál flokksins í kosningum verða ákvörðuð af sérstökum stefnumálahóp sem kynntur var á aðalfundinum um helgina. Að sögn Sigríðar Bylgju Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Pírata, verða það svo félagar í flokknum sem velja og kjósa áherslumálin áður en framvkæmdaráð og frambjóðendur flokksins kynna málin fyrir kjósendum.
Fyrirhugað er að halda kosninga í haust í kjölfar þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði af sér í apríl. Ekki hefur verið gefin út dagsetning fyrir kosningarnar, þó það verði eigi síðarn en í október. Stjórnarflokkarnir tveir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, segjast vilja ljúka ákveðnum málum áður en gegnið verður til kosninga.
Uppfært kl. 9:48 – Það var ekki ákvörðun aðalfundarins að halda prófkjör eins og greint var frá fyrst. Það hefur verið lagfært í fréttinni að ofan.