Það er óþolandi að Alþingi gangi gegn rétti launafólks til að semja beint við viðsemjendur sínar um kaup og kjör, skrifar Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í aðsendri grein undir fyrirsögninni „Hagsmunum ógnað?“ í Fréttablaðinu í dag. Þar fjallar hún um lögbann á yfirvinnubann flugumferðarstjóra sem samþykkt var á Alþingi 8. júní síðastliðinn.
Hún segir það einkennilegt ef ástandið sé orðið þannig að ef flugumferðarstjórar vinni ekki yfirvinnu þá sé almannahagsmunum stefnt í voða. BSRB hafi talið mun heppilegra að gefa deiluaðilum svigrúm til að ná samningum án hótana eða tímamarka. „Verkfallsrétturinn er varinn af stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna en stjórnvöld telja að yfirvinnubann flugumferðarstjóra hafi ógnað almannahagsmunum,“ skrifar Elín Björg.
Í útskýringum Ólafar Nordal innanríkisráðherra á því hvers vegna stjórnvöld ákváðu að leggja fram frumvarp til laga til að stöðva yfirvinnubannið eru neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna á Íslandi í forgrunni.
„Í fyrsta lagi er ríkinu ómögulegt að sinna lögbundnum skyldum sínum og þjónustu, þ.m.t. alþjóðlegum skuldbindingum um trygga, hagkvæma og örugga flugumferðarþjónustu. Í öðru lagi eru heildarhagsmunir heillar atvinnugreinar undir, þ.e. ferðaþjónustunnar, og í þriðja lagi er mikilvægt að efnahagslegum stöðugleika verði ekki stefnt í voða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á vinnumarkaði,“ segir í athugasemdum við lagafrumvarpið eins og Kjarninn fjallaði um.
„Það ætti kannski ekki að koma á óvart að stjórnvöld grípi til þess óyndisráðs að setja lög á þessa kjaradeilu,“ skrifar Elín Björg og bendir á að á kjörtímabilinu hafi stjórnvöld sett lög til að binda endi á verkfall skipverja um borð í Herjólfi, flugmanna, félagsmanna BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Nú sé röðin komin að flugumferðarstjórum. Þessar harðnandi deilur og fjöldi lagasetninga sýni að kominn sé tími til að endurskoða kerfið frá grunni.