Vísindavefurinn hefur birt nýtt svar við því hvað Icesave-samningarnir hefðu kostað íslenska ríkið hefðu þeir verið samþykktir. Hefðu samningarnir sem kenndir eru við Svavar Gestsson, verið samþykktir árið 2009 hefði ríkissjóður skuldað 140 milljarða króna. Fyrra svarið, sem birt var á Vísindavefnum í febrúar, sagði að kostnaðurinn hefði orðið 208 milljarðar. Skekkjan var því 68 milljarðar króna.
Hersir Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við viðskiptafræðideild HÍ, er höfundur beggja svara. Í inngangi að nýja svarinu segir að ekki hafi allar forsendur legið endanlega fyrir þegar útreikningarnir voru gerðir og birtir í febrúar, og ekki réttilega tekið tillit til þeirra í svarinu. „Þá gætti nokkurrar ónákvæmni í fjárhæðum sem leiddu til skekkju í lokamatinu,“ segir í inngangi svarsins.
Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, benti á þessar skekkjur í aðsendri grein sem birtist í Kjarnanum í maí. Þar sagðist hann hafa bent Hersi á skekkjurnar í útreikningum hans.
Gerðir voru þrír samningar við stjórnvöld í Hollandi og á Bretlandi um kröfur á hendur Landsbankanum vegna Icesave-sparireikninganna. Í fyrstu tveimur samningunum leiddi Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra, samninganefnd Íslands og í þeim þriðju leiddi Lee Buchheit samninganefndina. Eins og áður sagði hefði sú fjárhæð sem fallið hefði á ríkissjóð vegna Icesave-samninga Svavars verið 140 milljarðar. Fjárhæðin sem fallið hefði á ríkissjóð vegna samnings Buchheit hefði orðið 46,5 milljarðar.