Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur komist að niðurstöðu um að samningur Landsvirkjunar við Thorsil um sölu á raforku feli ekki í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Samningurinn var háður því að hljóta samþykki ESA til þess að öðlast fullnaðargildi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA sem barst fjölmiðlum í morgun.
Landsvirkjun mun afhenda allt að 55 megavött af afli til kísilvers Thorsil í Helguvík í Reykjanesbæ. Samningurinn var sendur eftirlitsstofnuninni til staðfestingar á því að hann gengi ekki gegn reglum Evrópska efnahagssvæðisins um samkeppni á markaði. ESA hefur komist að niðurstöðu um að samningurinn sé gerður á markaðskjörum „og felur þar af leiðandi ekki í sér ríkisaðstoð,“ segir í tilkynningu frá ESA.
„Landsvirkjun lagði fram yfirgripsmikil gögn sem sýna, að mati Eftirlitsstofunarinnar, að samningurinn um kaup á raforku er arðsamur og skilmálar hans slíkir að einkarekið fyrirtæki myndi samþykkja hann við sambærilegar aðstæður,“ segir enn fremur í tilkynningunni. Opinber útgáfa ákvörðunarinnar liggur hins vegar ekki fyrir en verður lögð fram innan eins mánaðar.
ESA stefndi íslenska ríkinu síðasta haust vegna þess að íslensk stjórnvöld höfðu ekki orðið við fyrirmælum um að stöðva og endurheimta ólögmæta ríkisaðstoð, eins og Kjarninn greindi frá. Það mál hefur enn ekki verið til lykta leitt. Málið sérist um ívilnunarsamninga sem íslenska ríkið gerði við fimm fyrirtæki, þar á meðal Thorsil, auk Becromal, Verne, Íslenska kísilfélagið og GMR endurvinnsluna. ESA komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að þessir samningar fælu allir í sér ríkisaðstoð sem gengi gegn EES-samningnum. Samningur Landsvirkunar og Thorsil tengist þessum málaferlum ekki.