Norður-Kórea skaut meðaldrægri eldflaug á loft og beinti henni að strönd Japans áður en hún féll í hafið í morgun. Yfirmenn í japanska hernum segja að nú fari ógn Norður-Króreu gagnvart nágrannaríkjum sínum vaxandi.
Hermálayfirvöld í Suður-Kóreu sögðu að eldflaugarskotið hefði farið á loft um tveimur tímum eftir að svipað eldflaugarskot mistókst. Seinni eldflaugin hafi ferðast 400 kílómetra, meira en hálfa vegalengdina að suðvesturströnd japönsku eyjarinnar Honshu. Reuters greinir meðal annars frá.
Eldflaugaskotið þykir sýna að Norður-Kóreu hefur orðið ágengt í eldflaugasmíði sinni sem hingað til hefur þótt nokkuð léleg á alþjóðlegan mælikvarða. Ítrekaðar tilraunir Norður-Kóreu með eldflaugaskot og kjarnorkuvopn sýni mótþróa stjórnvalda í Pjongjang gegn fjöldamörgum þvingunaraðgerðum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
„Við vitum ekki hvort þetta teljist sem heppnað eldflaugarskot hjá Norður-Kóreu,“ er haft eftir Gen Nakatani, varnarmálaráðherra Japans. „Norður-Kórea hefur þó sýnt getu sína með þessum meðaldrægu eldflaugum. Ógnin við Japan vex um leið.“
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, var einn þeirra sem gagnrýndi eldflaugaskotin í morgun. „Þessar ítrekuðu ógnanir grafa undan öryggi í heiminum og hamla umræðum. Norður Kórea verður að uppfylla skyldur sínar gagnvart alþjóðalögum, hætta að ógna með eldflaugaskotum og hætta að storka nágrönnum sínum.“
Norður-Kórea hótar Japan, Suður-Kóreu og Bandaríkjunum reglulega með stríðsyfirlýsingum. Jafnvel þó ekki hafi til átaka komið síðan Kóreustríðinu lauk óformlega árið 1953 þá var aldrei gert samkomulag um stríðslok. „Stjórnin í Norður-Kóreu verður að fara að átta sig á algeri einangrun sinni í heiminum,“ lét Park Geun-hye hafa eftir sér.