Flestir forsetaframbjóðendur hafa nú mætt á kjörstað til að kjósa næsta forseta Íslands. Guðni Th. Jóhannesson mætti fyrstur klukkan 10 í morgun í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Hálftíma síðar kom Andri Snær Magnason í Menntaskólann við Sund og næstur var Davíð Oddsson í Hagaskóla. Halla Tómasdóttir mætti klukkan 13 í Smárann í Kópavogi. Kjarninn fylgdist með þeim frambjóðendum sem mælast með mest fylgi í könnunum.
Kjörsókn í dag hefur verið svipuð, og mögulega aðeins meiri, og í forsetakosningunum árið 2012 en um hádegi höfðu í kring um 10 prósent landsmanna kosið. Kjörstaðir opnuðu flestir klukkan 9 í morgun og loka klukkan 22 í kvöld.
Forsetaframbjóðendur mæta á Kosningavöku RÚV klukkan 22 í kvöld og von er á fyrstu tölum um klukkan 23.
„Þetta er léttir, enda búin að vera löng törn. Það verður gott að þurfa ekki að vera alltaf tilbúinn með eitthvað sniðugt að segja. Eins og til dæmis núna,“ sagði Guðni í Valhúsaskóla í morgun.
„Þetta er stór dagur. Það verður skrýtið að vakna í fyrramálið, þetta var farið að venjast svo vel. En okkur tókst að gera þetta af heilindum,“ sagði Andri Snær þegar hann var að ganga í kjörklefann í Menntaskólanum við Sund.
„Ég er með rosalega góða tilfinningu fyrir deginum öllum. Ég fékk mér nýjan hafragraut í morgun, með nýjum rúsínum og nýjum kanel,“ sagði Davíð þegar hann skilaði atkvæði sínu í Hagaskóla í morgun. Þegar Ástríður, eiginkona hans, gekk til kjörklefans sagði hann: „Kjóstu rétt, kona.“
„Tilfinningin er mjög góð. Ég er mjög þakklát öllum og þetta er búið að vera frábært ferðalag. Við lítum á þetta sem sigur hvernig sem fer og það er gott að enda í sókn,“ sagði Halla þegar hún kaus í Smáranum í Kópavogi í hádeginu.