Guðni Th. Jóhannesson, verðandi forseti Íslands, fer til Frakklands í fyrramálið og verður viðstaddur leik Íslands og Englands á Evrópumótinu í fótbolta. Frá þessu greindi hann í viðtali við Hallgrím Thorsteinsson á Rás 2 í morgun.
Í viðtalinu ræddi Guðni um kosningabaráttuna sem er að baki og það sem framundan er. Hann viðurkenndi að kannski hefði hann fallið í þá gryfju í kosningabaráttunni að halda að sigurinn væri í höfn, og að vissu marki meðvitað en þó meira ómeðvitað hugsað að hann yrði næsti forseti. Hann hafi samt aldrei verið farinn að skipuleggja sig þannig, og haft varnagla þar á. „Ekkert er víst fyrr en klukkan tíu á kjördegi þegar kjörstöðum er lokað.“
Hann viðurkenndi einnig að hafa brugðið við fyrstu tölur, sem voru úr Suðurkjördæmi og sýndu lítinn mun á fylgi hans og Höllu Tómasdóttur. „Ég vissi að Halla hafði sótt mikið á enda átti hún mikið fylgi inni,“ sagði Guðni og sagðist óska Höllu og öllum hinum frambjóðendunum alls hins besta.
Hann hafi hins vegar róast við orð Davíðs Oddssonar þegar frekari tölur höfðu borist. „Það var hann sem tók af skarið, sem álitsgjafi, um það að sigurinn væri í höfn. Þá hvarf þessi kvíði sem kviknaði þegar fyrstu tölur bárust.“
Hallgrímur hafði orð á því hversu miklu afslappaðri og vinalegri frambjóðendurnir hafi verið í sjónvarpssal þegar kosningunum var lokið. Guðni segir það að hluta til hafa verið af því að línur voru farnar að skýrast. „Davíð vissi sem var að hann myndi ekki hafa sigur, Andri Snær örugglega líka, og Halla, hennar sigur fólst í hinu mikla fylgi sem sveiflaðist til hennar. Minn sigur var varnarsigur í ljósi þróunarinnar.“ Það hafi verið mikil rússibanareið að fylgjast með skoðanakönnunum.
Guðni sagði jafnframt að í langri kosningabaráttu geti það reynst snúið að selja hugmyndir hans um forsetaembættið æ ofan í æ. Forseta sem ætti ekki að vera með neinum í liði og standa utan við og ofan við ýmis deilumál í samfélaginu.
Hann sagði jafnframt að hann vænti þess að málefni forsetans og stjórnarskrárinnar verði rædd í aðdraganda alþingiskosninga. Hann væri fylgjandi ákvæði um beint lýðræði, því forseti verði að fylgja sinni sannfæringu fyrst og fremst og þjóðaratkvæðagreiðslur ekki að vera honum háðar eingöngu. Það væri ekki Íslandi til framdráttar að búið væri að ræða um breytingar á stjórnarskránni frá 2009, og einhverjum áföngum hafi verið náð en málið ekki klárað.