Guðni Th. Jóhannesson, nýkjörinn forseti Íslands, segir að það gæti reynst snúið að mynda nýja ríkisstjórn eftir næstu þingkosningar. Forsetinn ákveði hver skuli fyrst spreyta sig á myndun slíkrar að loknum kosningum og það þurfi ekki endilega að vera leiðtogi stærsta flokksins á þingi eða þess stjórnmálaafls sem unnið hafi mest á. „Það þarf einfaldlega að vera byggt á mati forsetans.“ Þetta kemur fram í viðtali við Guðna Th. í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir Guðni Th. að miðað við skoðanakannanir bendi allt til þess að sitjandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks missi sinn meirihluta og verði að biðjast lausnar. Þá þurfi að mynda nýja ríkisstjórn og teikn séu á lofti um það að fylgið muni skiptast jafnt og dreifast víða. „Og þá liggur í hlutarins eðli að það gæti reynst snúið að mynda nýja ríkisstjórn.“
Píratar eru stærstir - Stjórnarflokkarnir með undir 35 prósent
Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar stærðfræðings eru Píratar sem stendur stærsti flokkur landsins með 28,3 prósent fylgi. Flokkurinn hefur mælst stærstur nokkuð óslitið frá byrjun árs 2015. Nýtt stjórnmálaafl, Viðreisn, hefur sótt töluvert fylgi á undanförnum vikum og mælist nú með 8,2 prósent. Þá hefur fylgi Vinstri grænna aukist umtalsvert í eftirleik Wintris-málsins og flokkurinn mælist með 16,5 prósent fylgi. Stjórnarandstöðuflokkarnir, og ný framboð, hafa að jafnaði verið að mælast með 60-65 prósenta sameiginlegt fylgi um nokkuð langt skeið.
Stjórnarflokkarnir tveir mælast hins vegar báðir töluvert undir kjörfylgi sínu. Um 24 prósent kjósenda segjast fylgja Sjálfstæðisflokknum og hefur fylgi við flokkinn minnkað í undanförnum könnunum eftir að hafa tekið kipp upp á við snemmsumars. Framsóknarflokkurinn, sem fékk 24,4 prósent atkvæða í kosningunum 2013, mælist nú með tíu prósent fylgi og hefur verið á þeim slóðum ansi langi. Því er fylgi stjórnarflokkanna samtals einungis 34 prósent, en þeir fengu 51,1 prósent í kosningunum 2013. Sú niðurstaða tryggði þeim 38 af 63 þingmönnum.