Ísland sigraði England í sextán liða úrslitum á Evrópumótinu í fótbolta rétt í þessu!
Ævintýri Íslands á Evrópumótinu í fótbolta heldur því áfram eftir hreint út sagt stórkostlega frammistöðu.
Wayne Rooney kom Englendingum yfir úr víti á fjórðu mínútu leiksins, en aðeins mínútu seinna jafnaði Ragnar Sigurðsson. Á átjándu mínútu kom Kolbeinn Sigþórsson Íslandi í 2-1. Það ku vera met í Evrópukeppni að þrjú mörk séu komin eftir 19 mínútna leik.
Ísland heldur því áfram í átta liða úrslit á mótinu, eins ótrúlegt og það er, og er liðið ósigrað.
Þetta þýðir að Ísland keppir við Frakkland á þjóðarleikvangi Frakka, Stade de France, í París á sunnudaginn.
„Við vorum sigraðir af betra liði í kvöld,“ sagði Peter Crouch knattspyrnumaður og fyrrverandi landsliðsmaður á ITV í Bretlandi að leik loknum. Í hálfleik sögðu ITV-menn að ef enska landsliðið tapaði fyrir Íslandi yrði það smánarlegasti ósigur í sögu landsins. Englendingar eru miður sín yfir því að hafa verið slegnir út af Íslandi, það er óhætt að segja. Enskir áhorfendur á vellinum í Nice í kvöld púuðu á eigið landslið.
Roy Hodgson tilkynnti eftir leikinn að hann myndi hætta sem þjálfari Englands eftir ósigurinn í kvöld.