Ísland er í tíunda sæti í nýrri velferðarvísitölu The Social Progress Imperative (SPI) sem horfir til annarra þátta en landsframleiðslu til að mæla velferð í þjóðfélögum. Ísland lækkar um sex sæti milli ára og eru nú neðstir allra Norðurlanda. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Vísitalan sem um ræðir raðar ríkjum á lista eftir frammistöðu þeirra í 53 mismunandi þáttum. Á meðal þeirra þátta sem litið er til eru gæði menntunar, heilbrigðisþjónusta, umburðarlyndi og tækifæri í samfélögum.
Í Fréttablaðinu er rætt við Michael Green, framkvæmdastjóra samtakana sem standa að gerð velferðarvísitölunnar. Þar kemur fram að tvær ástæður séu aðallega fyrir því að Ísland lækki. Önnur lönd séu nú að bæta sig hvað varðar öryggi einstaklinga og aðgengi að upplýsingum umfram það sem Íslendingar gera auk þess sem aðferðarfræði hafi verið breytt sem breyti stöðu landsins til hins verra.
Finnland og Kanada eru í tveimur efstu sætunum á listanum. Í frétt samtakana vegna birtingu vísitölunnar segir að há landsframleiðsla sé engin trygging fyrir lífsgæðum. Bandaríkin falla til að mynda niður í 19. sæti listans í ár og eru að færast nær Kína, Rússland og Íran en þeim löndum sem eru í efstu sætum listans. Öll Norðurlöndin fimm eru á meðal þeirra tólf landa sem fá mjög háa einkunn samkvæmt vísitölunni. Ísland er, líkt og áður sagði, neðst þeirra í tíunda sæti. Öll Evrópusambandslöndin, og þau sem tilheyra EFTA, standa sig vel í samanburði við önnur lönd sem mælingin nær til. Samtökin segja að sterk frammistaða fyrstu bylgju ríkja frá Austur-Evrópu sem gengu í Evrópusambandið sýni að sú aðild hafi haft mjög jákvæð áhrif á lífsgæði og velferð í þeim löndum.
SPI segir að lífsgæði yngra fólks í heiminum, þess sem sé undir 25 ára, séu umtalsvert lakari en þeirra sem séu í aldurshópnum 55 ára og eldri. Helsta ástæða þess er sú að stór hluti ungs fólks býr í löndum sem eru eftir á á nær öllum mælikvörðum sem hægt sé að leggja á lífsgæði. Sérstakleg er nefnt að aðgengi yngsta hópsins að vatni og hreinlæti og að æðri menntun sé lakari en annarra aldurshópa.
Hægt er að lesa um stöðu Íslands samkvæmt vísitölunni hér.