Íslendingum mun fjölga um þriðjung næstu hálfu öldina samkvæmt nýrri mannfjöldaspá sem Hagstofa Íslands hefur birt. Miðspá stofnunarinnar gerir ráð fyrir að Íslendingar verði orðnir 442 þúsund alls árið 2065, en þeir voru 332 þúsund í byrjun þessa árs. Háspá Hagstofunnar segir að íbúarnir verði orðnir 523 þúsund í lok spátímabilsins en lágspáin gerir ráð fyrir að þeir verði 369 þúsund, og fjölgi þar með einungis um 37 þúsund á tímabilinu.
Í mannfjöldaspánni er gerð grein fyrir áætlaðri stærð og samsetningu mannfjölda í framtíðinni. Spáin byggir á tölfræðilíkönum fyrir búferlaflutninga, frjósemi og dánartíðni.
Útlendingum fjölgar, Íslendingar flytja burt
Samkvæmt spánni munu fleiri flytja til landsins en frá því næstu hálfu öldina. Fjölgunin verður aðallega vegna erlendra innflytjenda. Íslendingar sem flytja frá landinu verða hins vegar áfram fleiri en þeir sem kjósa að flytja aftur til Íslands.
Öldruðum mun fjölga hratt á Íslandi á næstu áratugum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að Íslendingar lifa mun lengur en þeir gerðu áður og sú þróun mun halda skarpt áfram. Meðalævi Íslendinga mun lengjast þannig að meðalævilengd karla við fæðingu hækkar úr 79,6 árum árið 2016 í 84,3 ár árið 2065, en kvenna úr 83,6 árum árið 2016 í 88,6 ár árið 2065. Hlutfall þeirra landsmanna sem verða yfir 65 ára fer yfir 20 prósent árið 2035 samkvæmt spánni og yfir 25 prósent árið 2061. Frá árinu 2049 verða þeir sem eru eldri í fyrsta sinn fleiri en þeir sem eru yngri en tvítugir í sögu landsins. Í frétt Hagstofunnar segir: „Þótt þjóðin sé að eldast og fólksfjölgun verði fremur hæg þá eru Íslendingar nú, og verða enn um sinn, mun yngri en flestar Evrópuþjóðir. Árið 2060 verður meira en þriðjungur Evrópubúa eldri en 65 ára en einungis um fjórðungur Íslendinga.“
Kynjahlutfall þjóðarinnar mun einnig breytast umtalsvert. Karlar verða fleiri en konur á hverju ári næstu 50 árin. Í mannfjöldaspánni segir að fyrir þessu séu nokkrar ástæður. „Fleiri drengir fæðast á hverju ári en stúlkur, fjölda fæðinga, mismunandi dánartíðni kynjanna, ólíkum lífslíkum kynjanna og ólíkri hegðun kynjanna hvað varðar búferlaflutninga.“ Þá breyti mikill innflutningur karlkyns verkafólks umfram kvenkyns skyndilega kynjasamsetningu þjóðarinnar.
Þessi þróun er öfug við það sem gerist í flestum Evrópuríkjum, þar sem karlar eru færri enn konur. Sama gildir raunar um önnur lönd þar sem meðalaldur fer hækkandi.