Nokkur samtök, sem hafa eftirlit með kosningaframlögum í Bandaríkjunum, hafa sent kvörtun til kjörstjórn (e. Federal Election Commission) vegna tölvupósta sem Donald Trump, sem að öllum líkindum verður forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, sendi erlendum þingmönnum og embættismönnum þar sem hann óskaði eftir styrkjum við framboð sitt. Á meðal þeirra sem fengu póst frá Trump voru Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Á vef Bloomberg er haft eftir Paul S. Ryan, eins stjórnenda samtakana Campaign Legal Center sem eru á meðal þeirra sem standa að kvörtuninni, að augljóst sé að tölvupóstsendingar Trump til ráðamanna annarra landa, á opinber netföng þeirrra, brjóti í bága við alríkislög. „Þrátt fyrir það þá er þetta nákvæmlega það sem Trump hefur ítrekað gert.“ Fréttir hafa verið sagðar af þingmönnum í Skotlandi, Íslandi, Englandi og Ástralíu sem hafi fengið tölvupósta frá Trump þar sem bað viðkomandi um að styrkja framboð sitt. „Hjálpið mér að gera fyrsta fjársöfnunartölvupóstinn sem ég hef nokkru sinni sent út að árangursríkasta fjársöfnunartölvupósti sem hefur nokkru sinni verið sendur út í sögu nútíma stjórnmála," stóð pósti sem barst íslenskum þingmönnum. Þar óskaði Trump eftir framlögum frá 1-2.700 dali og bauðst til að styrkja viðkomandi um sömu upphæð á móti.
Donald Trump hefur ítrekað látið hafa eftir sér að hann eigi „ótakmarkaða“ sjóði sem hann muni nota til að fjármagna kosningabaráttu sína sjálfur. Framboð hans safnar hins vegar peningum frá almenningi þrátt fyrir þessi orð frambjóðandans. Reuters greindi frá því að í maí hafi hann aflað 3,1 milljón dollara frá einstaklingum. Upphæðirnar sem Trump tekst að safna eru hins vegar smápeningar í samanburði við þær upphæðir sem Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrata, hefur safnað. Í maí einum saman safnaði Clinton 26 milljónum dollara.