Innri endurskoðandi og regluvörður Reykjavíkurborgar skila áliti um Júlíus Vífil Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í ágúst. Hallur Símonarson, innri endurskoðandi, og Gísli Hlíðberg Guðmundsson regluvörður skiluðu áliti vegna Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur til forsætisnefndar borgarstjórnar í gær.
Ítarleg úttekt vegna Panamaskjalanna
Ástæða úttektarinnar eru tengsl borgarfulltrúanna við aflandsfélög, en nöfn þeirra beggja komu fram í Panamaskjölunum sem Kastljós og Reykjavík Media fjölluðu um þann 3. apríl síðastliðinn. Forsætisnefnd borgarstjórnar fór fram á að farið yrði yfir það hvort þau höfðu fylgt settum reglum varðand hagsmunaskráningu.
Júlíus Vífill stofnaði aflandsfélag í Panama árið 2014. Það mál vatt töluvert upp á sig, en fyrst sagði Júlíus að um hefði verið að ræða fyrirtæki utan um eftirlaunasjóð sinn. Systkini hans stigu þó fram í kjölfarið og sögðu að um væri að ræða lífeyrissjóð foreldra þeirra og sökuðu hann um að fela hann fyrir þeim. Júlíus sakaði systkini sín á móti um að hafa dregið að sér fé.
Skráði ekki þrjú íslensk félög
Niðurstaða í máli Sveinbjargar Birnu er í meginatriðum sú að hún hafi ekki gerst brotleg þegar hún skráði ekki tvö aflandsfélög sem hún tengdist, 7CALLINVEST INC. og ICE 1 CORP INC., þar sem búið var að afskrá félögin. Henni bar hins vegar að skrá tvö íslensk félög, ImmoIce ehf og Lögmönnum Hamraborg 12, þar sem hún situr í stjórn beggja og er framkvæmdastjóri ImmoIce ehf. og stofnandi Tailor Made Iceland ehf sem hét áður P10 ehf.
Hún skráði félögin þrjú sem fjárhagslega tengda aðila á árinu 2014 í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti þegar hún var skráð sem fruminnherji hjá Reykjavíkurborg eftir borgarstjórnarkosningarnar 2014. Skoðunin leiddi í ljós að ekkert sem bendir til þess að Sveinbjörg Birna hafi gerst sek um innherjasvik.
Fór ekki á svig við lög
Meginniðurstaðan er sú að Sveinbjörg fór ekki á svig við stjórnsýslulög eða lög um verðbréfaviðskipti og leiðbeiningar Fjármálaeftirlitsins þar um. Hins vegar var ekki farið að ákvæðum reglna um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar, varðandi félögin sem hún á hlut í hér á landi.
Sveinbjörg sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hún hugðist snúa aftur til starfa, en hún tók sér leyfi frá störfum á meðan úttektin stóð yfir. Júlíus Vífill sagði hins vegar af sér og eins og áður segir er búist er við niðurstöðum í máli hans í ágúst.
Nafn Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, kom einnig fram í Panamaskjölunum, en ekki þótti ástæða til að skoða hennar þátt frekar þar sem töluvert er síðan hún hætti sem borgarfulltrúi.