Guðni Th. Jóhannesson, verðandi forseti Íslands, segist verða að gæta í sín í umræðu um flóttamenn og hælisleitendur. Hann vilji ekki þaga en verði líka að sýna því skilning að sjónarmið vegist á, eins og í máli tveggja hælisleitenda sem voru dregnir út úr Lauganeskirkju í síðustu viku. Ísland geti ekki bjargað heiminum, en geti lagt sitt af mörkum.
„Ég held að við höfum allar forsendur til að búa fólki hér nýja veröld, búa því nýtt líf án þess að okkar samfélag skaðist á nokkurn hátt. Við höfum tekið á móti fólki, við verðum að halda því áfram,“ sagði forsetinn verðandi í viðtali við Helga Seljan í Vikulokunum á Rás 1. Á Íslandi séu ekki sömu vandamál varðandi innflytjendur og sums staðar annars staðar.
„Það er ekkert að óttast hér á Íslandi ef við erum skynsöm og sýnum mannúð.“ Hann var þá spurður að því hvort honum þætti skorta á mannúðina á Íslandi. „Mér finnst stundum hræðslan verða skynseminni yfirsterkari. Það er svo auðvelt að mála fjandann á vegginn.“ Hann eigi sjálfur konu frá Kanada, sem sé land innflytjenda. „Þar hefur að mestu tekist að búa til samfélag þar sem innflytjendur eru velkomnir.“ Kanada geti verið okkur fyrirmynd að vissu leyti.
„Við hér á Íslandi eigum að hlakka til og gleðjast yfir þeim sem vilja hingað koma og bæta okkar samfélag, en við getum ekki tekið á móti öllum sem hingað vilja koma, það vita allir. Líka þeir sem vilja sýna mannúð eins og ég,“ sagði Guðni.