Það er ekkert atriði að forseti Íslands sé ekki í þjóðkirkjunni, segir verðandi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson. Það sé trúfrelsi á Íslandi sem sé varið í stjórnarskrá. „Forseti á að geta staðið utan trúfélaga kjósi hann það. Hann á að geta verið í hvaða trúfélagi sem er. Ég mun rækja mínar skyldur gagnvart kirkjunni eins og vera ber þrátt fyrir að ég standi utan trúfélaga, og er þar mjög sáttur við guð og menn,“ sagði Guðni í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.
Hann var þar spurður um ummæli biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur, um að það væri affarasælast að forseti Íslands væri í þjóðkirkjunni, ekki síst þar sem forsetinn eigi að vera verndari kirkjunnar.
Guðni sagði fara vel á með honum og Agnesi og hann óttist ekkert í þessum efnum. Það trufli hann heldur ekki neitt að þjóðkirkjunni þætti affarasælast að forsetinn væri í kirkjunni. „Eitt orð er affarasælast, annað er nauðsynlegt,“ sagði Guðni.
Hafði ekki ímyndunarafl í þorskastríðsumræðuna
Guðni ræddi einnig um kosningabaráttuna sem er nýlokið. Hann segir það hafa hreinlega sést á honum hvað hann hafi verið orðinn þreyttur undir lok baráttunnar. Hann hafi líka flaskað á því að halda í það að vera hann sjálfur, og hafi aðeins farið í annan ham. „Ég hætti að vera ég sjálfur,“ sagði hann og að hann hafi frekar farið að hugsa um hvað hann ætti að segja heldur en að segja það sem honum bjó í brjósti. Nú þyrfti hann að fá tíma til að setja sig inn í embættið og finna sig í því að feta veginn á milli þess að „virða ramma embættisins og mitt takmark og skyldu að vera þetta sameiningarafl, en um leið samt ekki ganga inn í einhvern annan ham. Þetta er vandratað.“
Þá sagði Guðni að hann hefði verið búinn undir það að ýmislegt, þar á meðal störf hans, yrði dregið inn í kosningabaráttuna, en það hafi komið honum „innilega á óvart“ að þorskastríðin hafi verið þar á meðal. „Ég hafði bara ekki ímyndunarafl til að halda að þorskastríðin yrðu um skeið mál málanna í forsetakosningunum 2016.“ Honum hafi stundum þótt gengið fulllangt í því að beinlínis snúa út úr og slíta úr samhengi. Hann sagði „suma fjölmiðla“ hafa gert það, en þegar Helgi Seljan þáttastjórnandi nefndi Morgunblaðið sérstaklega þá samsinnti Guðni því.
Umræðan um fávísan lýð og sveitafólk kom úr fyrirlestri sem hann hélt í Háskólanum á Bifröst, þar sem hann vitnaði í nemanda sinn. Guðni sagði sér hafa fundist lélegt hvernig haldið var á því máli. Hann tók samt fram að honum hafi þótt virðingarvert hvernig Davíð Oddsson, forsetaframbjóðandi og ritstjóri Morgunblaðsins, hafi brugðist við úrslitunum.
Guðni sagðist nefnilega halda að þessar kosningar og kosningabarátta hafi leitt það í ljós, og beindi orðum sínum til þeirra sem hyggi á kosningabaráttu í alþingiskosningum í haust, að neikvæð barátta skili frekar litlu. „Haldið ykkur frekar við það að benda á ykkar eigin sjónarmið og stefnumál og þá mun ykkur vel farnast.“
Umræða um breytingar á forsetaskrifstofu vægast sagt skrýtin
Ýjað hefur verið að því, meðal annars í Orðinu á götunni á Eyjunni, að Guðni gæti tekið kosningastjórann Friðjón Friðjónsson með sér til forsetaembættisins, þá mögulega sem forsetaritara. Guðni sagði ekkert til í neinum svona vangaveltum. Honum hafi þótt þessi frétt, eða umræða, „dálítið skrýtin, vægast sagt.“
„Það er einvala lið á skrifstofu forseta Íslands. Ég gæti ekki hugsað mér metri menn en vinna þarna. Þeir eru hoknir af reynslu, vingjarnlegir, viðræðugóðir, fúsir til aðstoðar,“ sagði Guðni meðal annars.